Hættuástand við háspennulínur á Fjarðarheiði og víðar


28.02.2014

Framkvæmd

Mikið fannfergi er enn til fjalla víða á Austurlandi og Vestfjörðum og hættulega stutt upp í línuleiðara á mörgum stöðum, s.s. á Fjarðarheiði eystra og á norðanverðum Vestfjörðum.

Landsnet hvetur enn og aftur útvistarfólk, sérstaklega skíða- og vélsleðafólk sem og alla aðra, til að fara mjög varlega nærri háspennumannvirkjum til fjalla og á hálendinu. Þar er nú víða minna en mannhæðar hátt upp í háspennuvírana og sumstaðar eru þeir hreinlega á kafi í snjó. Þetta getur skapað mikla hættu fyrir þá sem eru á ferðinni á skíðum eða vélsleðum. Ísing er einnig víða á háspennulínum og getur hún gert það að verkum að bæði leiðarar og möstur verða nær ósýnileg þeim sem eru á ferðinni.

Meðfylgjandi myndir tóku starfsmenn Landsnets á Fjarðaheiði í vikunni. Eins og sjá má er orðið mjög stutt þarna upp í línurnar þó svo þær séu ekki enn komnar á kaf, eins og á Bolungarvíkurlínu 1 á norðanverðum Vestfjörðum.
Aftur í allar fréttir