Grænt ljós frá Orkustofnun á framkvæmdir til að auka orkuöryggi í Vestmannaeyjum


13.08.2015

Framkvæmd

Orkustofnun hefur veitt Landsneti leyfi til að reisa nýtt 66 kV raforkuflutningsvirki í Vestmannaeyjum auk leyfis til breytinga í tengivirki Landsnets í Rimakoti og styrkingar á hluta Rimakotslínu 1 til að auka flutningsgetu hennar. Sótt var um leyfir fyrir framkvæmdinni til Orkustofnunar 20. mars 2015.

Leyfið, sem barst á sama tíma og alverleg bilun varð í spenni í tengivirkinu í Rimakoti, felur í sér að hægt er að hefjast handa við úrbætur og koma á betri tengingu við Vestmannaeyjar en nú er. Ráðgert er að framkvæmdunum ljúki næsta sumar en megintilgangur þeirra er að auka afhendingargetu og afhendingaröryggi raforku til Eyja til framtíðar, eins og fram kemur í leyfinu. Þar segir jafnframt að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu jákvæð þar sem áætlunin geri ráð fyrir að fiskvinnslufyrirtæki, sem nú brenna olíu, munu í kjölfarið í meiri mæli tengjast raforkukerfinu.

Landsnet lagði nýjan sæstreng, VM3, til Vestmannaeyja árið 2013, sem rekinn er á 33 kV spennu og verður hægt að tvöfalda flutningsgetu hans með því að hækka rekstrarspennuna í 66 kV. Til að hækka flutningsspennuna er þörf á að reisa nýtt tengivirki í Vestmannaeyjum því engir stækkunarmöguleikar eru í núverandi tengivirki. Nýja tengivirkið er hugsað sem framtíðarafhendingarstaður til dreifiveitunnar þar, HS Veitna, og verður það reist í samstafi við dreifiveituna sem mun eiga stærstan hluta tengivirkisins. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru á landi Vestmannaeyjabæjar sem þarf að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli staðfests skipulags og álits Skipulagsstofnunar. 

Frétt á heimasíðu Orkustofnunar 

Aftur í allar fréttir