Ársreikningurinn 2016 var samþykktur á fundi stjórnar í dag 9. febrúar 2017
Helstu atriði ársreikningsins:
- Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 49,7 milljónum USD (5.999,4 millj.kr.) samanborið við 56,8 milljónir USD (6.855,9 millj.kr) árið áður. Lækkunin er um 7,1 milljón USD (856,5 millj.kr) á milli ára og skýrist aðallega af hækkun afskrifta.
Tap samkvæmt rekstrarreikningi nam 13,0 milljónum USD (1.564,7 millj.kr) á árinu 2016 samanborið við 30,4 milljónir USD (3.669,8 millj.kr.) hagnað á árinu 2015.
Unnið var að endurfjármögnun félagsins á árinu þar sem fjármögnun félagsins var að miklu leyti breytt yfir í bandaríkjadal í samræmi við nýjan starfrækslugjaldmiðil félagsins. Gefin voru út skuldabréf, 200 milljónir USD, í lokuðu skuldabréfaútboði í Bandaríkjunum í desember 2016. Greitt var inn á verðtryggt krónulán frá stærsta eiganda félagsins og eftirstöðum skuldbreytt í bandaríkjadali. Í árslok var um 80% af fjármögnun félagsins komin yfir í bandaríkjadali samkvæmt stefnu stjórnar.
Lausafjárstaða félagsins er sterk, handbært fé í lok árs nam 18,3 milljónum USD (2.202,6 millj.kr.) og handbært fé frá rekstri á árinu nam 52,4 milljónum USD (6.322,6 millj.kr.).
Í byrjun árs 2016 var starfrækslugjaldmiðli Landsnets breytt og er þetta því fyrsta árið sem fyrirtækið er gert upp í bandarískum dal. Fjármögnun félagsins var að mestu leiti í íslenskum krónum og því var niðurstaða ársins Landsneti óhagstæð vegna mikillar styrkingar krónunnar.
Á árinu var unnið að endurfjármögnun fyrirtækisins og náðist stór áfangi í þeim efnum í lok árs þegar fyrirtækið gaf út 200 milljónir USD skuldabréf í lokuðu skuldabréfaútboði fyrir fagfjárfesta í Bandaríkjunum.
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að með breyttri fjármögnun fyrirtækisins hafi verið dregið úr gengisáhættu og hagstæðari vaxtakjör náðust. Með þeim breytingum sem gerðar voru á fjármögnun félagsins hefur gengisáhættan minnkað verulega og fjármagnskostnaður fyrirtækisins lækkaður sem mun koma neytendum til góða í framtíðinni.
„Það er jákvætt að sjá að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir er góður og í takt við áætlanir. Rekstur Landsnets stendur á mjög traustum grunni og má nær eingöngu skýra tap fyrirtækisins með styrkingu krónunnar á árinu og áhrif þess á fjármagnskostnað. Fyrirtækið var áður með um 80% af fjármögnun sinni bundna í stofnlán frá stærsta eigandanum og var lánið verðtryggt í íslenskum krónum án afborgunarheimildar til ársins 2020. Á árinu áttu sér stað viðræður við lánveitendur og var stórt skref stigið þegar samningar náðust um innborgun inn á stofnlánið og skuldbreytingu eftirstöðva þess í árslok 2016. Breytt fjármögnun skilar okkur hagstæðari kjörum auk þess sem dregið er úr gengisáhættu.”
Hér má nálgast nálgast ársreikninginn.
Tap varð á rekstri félagsins sem nam 13 milljónum USD (1.564,7 millj.kr.) en til samanburðar var félagið rekið með hagnaði sem nam 30,4 milljónum USD (3.669,8 millj.kr.) árið áður.
EBITDA félagsins stóð nánast í stað á milli ára og var á árinu 2016 79,2 milljónir USD (9.553,1 millj.kr.) í samanburði við 79,0 milljónir USD (9.530,5 millj.kr.) árið áður. Tap félagsins og lækkun í afkomu á milli ára má nær eingöngu skýra með styrkingu krónunnar á árinu og áhrifa þess á fjármagnsliði.
Helstu niðurstöður rekstrarreiknings, lykiltölur efnahagsreiknings og kennitölur (fjárhæðir eru í þúsundum bandaríkjadala):
Rekstrarreikningur
- Rekstrartekjur námu 129,7 milljónum USD árið 2016 á móti 122,7 milljónum USD árið áður.
- Tekjur af flutningi til stórnotenda drógust saman um 2,6 milljónir USD og skýrist það að mestu leyti af lækkun á gjaldskrá um 9% frá 1. júlí 2016.
- Tekjur af flutningi til dreifiveitna jukust um 5,2 milljónir USD á árinu en gjaldskrá hækkaði tvívegis á árinu 2016, fyrst 1. janúar um 10% og svo 1. desember um 13%. Frá 2008 hafði gjaldskrá til dreifiveitna ekki haldið verðgildi sínu og lækkað að raunvirði. Félaginu eru reiknaðar tekjur á grundvelli raforkulaga og voru hækkanir ársins ákvarðaðar á þeim grunni. Lækkun varð á tekjum frá skerðanlegum flutningi á milli ára sem nam 1,7 milljónum USD.
- Tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutaps í flutningskerfinu jukust um 3,9 milljónir USD á milli ára. Gjaldskrá vegna kerfisþjónustu hækkað 1. janúar um 4,5% og gjaldskrá vegna orkutapa um 12,0% . Hækkanir má rekja til hærra innkaupsverðs á þessum liðum en gjaldskrá er sett á kostnaðargrunni með 1,5% álagi.
- Rekstrargjöld hækka um 14,1 milljón USD á milli ára en þar af er hækkun á afskriftum 7,3 milljónir USD sem skýrist af viðbótarendurmati á varanlegum rekstrarfjármunum árið 2015. Innkaupum á kerfisþjónustu og orku vegna flutningstapa nemur 4,1 milljón USD.
- Styrking krónunnar gagnvart bandaríkjadal á milli ára nam um 13% í rekstri. Áhrif þess í rekstri félagsins kemur fram í auknum tekjum og hækkun rekstrarkostnaðar. Í heild hefur styrkingin óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði.
- Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 49,7 milljónum USD samanborið við 56,8 milljónir USD árið áður og lækkar um 7,1 milljón USD á milli ára.
- Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 66,2 milljónum USD en voru 19,0 milljónir USD á árinu 2015. Hrein fjármagnsgjöld hækka því um 47,2 milljónir USD á milli ára. Félagið var að mestu fjármagnað í íslenskum krónum og skýrir 13% styrking krónunnar að mestu leyti hækkunina á hreinum fjármagnsgjöldum á milli ára. Unnið var að endurfjármögnun á árinu 2016 og í desember var gengið frá óveðtryggðu skuldabréfaútboði í Bandaríkjunum að fjárhæð 200 milljónir USD. Það skref var mjög mikilvægt fyrir félagið sem fyrsta skuldabréfaútgáfa þess í erlendri mynt. Þá var samið við stærsta eiganda fyrirtækisins um innborgun á stofnlán frá árinu 2005 sem var án afborgunarheimildar svo og skuldbreytingu eftirstöðvar í bandaríkjadali. Í árslok var því búið að ná um 80% af fjármögnun félagsins yfir í bandaríkjadali en áður var um 90% af fjármögnuninni í íslenskum krónum.
- Tap Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 13,0 milljónum USD á árinu 2016 samanborið við hagnað að fjárhæð 30,4 milljónum USD á árinu 2015 og liggur breytingin á milli ára að megninu til í gengismun.
Efnahagsreikningur
- Heildareignir félagsins í árslok námu 770,8 milljónum USD samanborið við 794,6 milljónir USD í lok árs 2015.
- Heildarskuldir námu í árslok 462,4 milljónum USD samanborið við 470,9 milljónir USD í lok árs 2015.
- Lausafjárstaða félagsins er sterk. Í lok árs nam handbært fé 18,3 milljónum USD og handbært fé frá rekstri á árinu nam 52,4 milljónum USD
- Eiginfjárhlutfall í árslok var 40,0% samanborið við 40,7% árið 2015.
Horfur í rekstri
Með þeim breytingum sem gerðar voru á fjármögnun í árslok hefur gjaldmiðlaáhætta félagsins minnkað verulega til framtíðar litið. Áhrif af breytingum á starfrækslugjaldmiðli á EBITDA félagins er óveruleg enda tekjur og gjöld með náttúrulega vörn gagnvart því. Með breyttri samsetningu lánasafnsins og nýjum lántökum hefur gjaldmiðlaáhætta í efnahag félagsins minnkað verulega þegar til framtíðar er litið.
Áætlanir félagsins fyrir árið 2017 gera ráð fyrir 26,4 milljóna USD hagnaði af rekstri félagsins. Flutningsgjaldskráin er óbreytt á árinu og engar fyrirhugaðar breytingar þar á. Gjaldskrá vegna kerfisþjónustu og tapa tekur á hverjum tíma mið af kostnaðarverði þeirrar þjónustu. Áfram verður unnið að breytingum á lánasafni í takt við stefnu stjórnar með það að markmiði að lengja í afborgunarferlum og afla hagstæðari kjara.
Um ársreikninginn
Ársreikningur Landsnets hf. 2016 er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Uppgjör Landsnets er í Bandaríkjadölum (USD), sem er starfrækslugjaldmiðill félagsins. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi stjórnar 9. febrúar 2017
Um Landsnet
Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.
Nánari upplýsingar veitir Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða netfang gudlaugs@landsnet.is