Opið hús var í stjórnsýsluhúsinu á Hellu í gær þar sem fulltrúar Landsnets og Vegagerðarinnar kynntu drög að matsáætlunum vegna fyrirhugaðrar Sprengisandslínu annars vegar og nýrrar Sprengisandsleiðar hins vegar. Daginn áður var haldinn sambærileg kynning í Ljósvetningabúð í Þingeyjarsýslu.
„Það var ágæt mæting á fundinn hér á Hellu en við teljum að hingað hafi komið á bilinu 70 til 80 manns til að kynna sér málið,“ segir Gísli Gíslason hjá teiknistofunni Steinsholti sf. sem hefur verið falið að annast umhverfismat Sprengisandslínu ásamt verfræðistofunni Eflu. Hann segir að eins og á fundinum fyrir norðan hafi verið meira spurt um veginn en línuna, enda finnist sumum vegalagning fela í sér meira inngrip í landið en lína sem hægt sé að fjarlægja. „Það eru líka margir sem hafa áhuga á því að vegurinn um Sprengisand verði bættur og finnst línan koma sér minna við. Vegurinn virðist því standa fólki nær en línurnar.“Meiri efasemdir utan héraðs
Gísli segir að eins og búast megi við séu skiptar skoðanir um þessi verkefni og sagði hann að á fundunum hafi þeir sem búa utan héraðs og fjær vettvangi almennt virst hafa meiri efasemdir en fólk úr héraði. Á fundinum í Ljósvetningabúð hafi nánast eingöngu verið heimamenn og fólk úr nærsveitum en á Hellu hafi fólk komið af öllu Suðurlandi og margir sunnan úr Reykjavík. Því hafi efasemdaraddirnar heyrst meira á Hellu en fyrir norðan. „Umræður um málin voru hins vegar mjög málefnalegar og vinsamlegar á báðum kynningarfundunum þannig að við erum ánægðir með hvernig til hefur tekist,“ segir Gísli.
Gísli segir að menn hafi talsvert velt fyrir sér staðsetningu línunnar og hvort hún eigi að liggja sem næst nýjum vegi eða í hvarfi frá honum. Einnig hafi talsvert verið spurt um hvort ekki sé hægt að leggja jarðstreng í stað línu og af hverju jarðstrengur geti ekki orðið lengri en 50 kílómetrar af þeim 195 kílómetrum sem öll línan er áætluð.
Gagnsætt ferli
Að sögn Gísla er stefnt að þriðja kynningarfundinum á höfuðborgarsvæðinu og verður hann haldinn eins fljótt og við verður komið. „Við og umbjóðendur okkar viljum hafa ferlið eins opið og gagnsætt og og frekast er unnt þannig að almenningur hafi aðgang að því á öllum stigum,“ segir Gísli Gíslason.
Sprengisandslínan sem Landsnet undirbýr er 220 kV háspennulína, frá tengistað við Langöldu á Landmannaafrétti að áætluðu tengivirki við Eyjadalsá vestan Bárardals, alls um 195 km. leið. Landsnet og Vegagerðin hafa samstarf um leiðaval vegna Sprengisandsleiðar og Sprengisandslínu og er mat á umhverfisáhrifum fyrir Sprengisandsleið því einnig hafið.