Góð mæting í opið hús í Bolungarvík


16.12.2014

Framkvæmd

Hátt í 100 manns mættu í opið hús sem Landsnet stóð fyrir í varaaflsstöðinni í Bolungarvík í gær í tilefni þess að vinnu er nú lokið við stöðina og snjallnetskerfið á Vestfjörðum.

Mikill áhugi var hjá gestum að kynna sér bæði stöðina og snjallnetið en það er samheiti yfir hinar ýmsu tækninýjungar á sviði flutnings og dreifingar raforku á svæðinu. Snjallnetið var sett upp í samstarfi Landsnets og Orkubús Vestfjarða og á það að tryggja eins örugga afhendingu rafmagns til notenda og hægt er og koma rafmagni á að nýju á innan við tveimur mínútum á Ísafirði og í Bolungarvík með því að ræsa varavélarnar ef orkuafhending bregst.

Snjallnetið á Vestfjörðum er hið fyrsta sinnar tegundar á landinu. Einnig er nýlunda að láta varaaflsstöð, eins og er í Bolungarvík, þjóna stórum landshluta. Sex 1,8 MW dísilvélar eru í stöðinni og samsvarar afkastageta hennar orkunotkun norðanverðra Vestfjarða. Tilkoma stöðvarinnar styrkir því verulega raforkukerfið á Vestfjörðum. Snjallnetið er svo lykilatriði í hraðri spennusetningu kerfisins eftir straumleysi. Lykilinn að virkni þess eru bætt fjarskipti – og til að tryggja þá virkni hefur verðið ráðist í miklar styrkingar á fjarskiptakerfinu á Vestfjörðum.

Myndir:
Bolvíkingar og aðrir gestir voru áhugasamir um að kynna sér starfsemi varaaflsstöðvarinnar og virkni snjallnetskerfisins á Vestfjörðum. Með fyrstu gestum var Elías Jónatansson, bæjarstjóri í Bolungarvík og þakkar Landsnet honum og öllum öðrum sem leið sína lögðu í varaaflsstöðina í gær fyrir komuna. Landsnet þakkar einnig Gunnari Bjarna Ólafssyni, umsjónarmanni Skeljungs á Vestfjörðum sem kom færandi hendi með blómvönd í tilefni dagsins.

Opið hús í Bolungarvík ýtarefni

Aftur í allar fréttir