Suðurnesjalína 2 er liður í styrkingu meginflutningskerfisins til að mæta vaxandi þörf fyrir raforkuflutning á Suðurnesjum. Fyrir liggur athugun á lausn sem felur í sér 220 kV háspennulínu frá Hafnarfirði og út á Reykjanes. Suðurnesjalína 1, sem nú þjónar svæðinu og rekin er á 132 kV spennu, er fulllestuð í dag jafnframt því sem öryggi kerfisins er ófullnægjandi þar sem aðeins er um þessa einu tengingu að ræða frá Reykjanesskaganum við 220 kV meginflutningskerfi Landsnets.
Brugðist við hæstaréttardómi
Hæstiréttur hefur í dómum vegna eignarnáms komist að þeirri niðurstöðu að gera þurfi nánari grein fyrir þeim kostum sem hafa komið til umræðu vegna raforkuflutnings til og frá Suðurnesjum. Brugðist verður við með því að setja fram samanburð á loftlínu- og jarðstrengjakostum og hefur Landsnet fundað með fulltrúum þeirra landeigenda í Vogum á Vatnsleysuströnd sem aðild áttu að eignarnámsdómsmálum til að skilgreina þá kosti sem hafa verið til umræðu og bera þá saman. Samanburðurinn er settur fram í valkostaskýrslu sem tekur mið af niðurstöðum nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð en nefndin var stofnuð í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 1. febrúar 2012.
Gerð valkostaskýrslu
Landsnet leggur áherslu á að samanburðurinn í valkostaskýrslunni verði eins upplýsandi og mögulegt er um þau meginatriði sem þarf til að taka megi afstöðu til kostanna. Landsnet hefur það hlutverk skv. raforkulögum að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Valkostaskýrslan þarf því að gera grein fyrir öllum þessum þáttum, auk áhrifa á umhverfið. Hluti fyrrgreindra þátta er fyrst og fremst tæknilegs eðlis, svo sem öryggi, skilvirkni, áreiðanleiki og gæði. Annar hluti snýr að stefnu stjórnvalda og umhverfi regluverks þ.e. stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins, þ.m.t. stefna um hve mikla orku skuli afhenda, hvar og hvenær. Enn einn þáttur snýst um hversu miklu fé er heimilt að verja til jarðstrengja umfram loftlínur. Gefa þarf upplýsingar um alla þessa þætti fyrir hvern kost á sambærilegan hátt.
Þegar valkostaskýrsla vegna Suðurnesjalínu 2 er rituð hefur undirbúningur þeirrar framkvæmdar þegar staðið yfir í mörg ár. Fjölmörg ítarleg gögn hafa verið lögð fram og margvísleg sjónarmið hagsmunaaðila hafa verið reifuð.
Hér á eftir er því lýst hvernig valkostaskýrsla fyrir Suðurnesjalínu 2 er unnin. Verkið er þegar hafið.
1. Mótun kosta
Sá kostur sem verið hefur til umfjöllunar fram að þessu er eðlilega tekinn til skoðunar og samanburðar við aðra. Til viðbótar hefur Landsnet mótað tvo jarðstrengskosti í tilefni af umræðu sem fela í sér strenglögn svo til alla leiðina. Annar gerir ráð fyrir legu meðfram núverandi Suðurnesjalínu en hinn meðfram Reykjanesbraut.
2. Mat á kostum
Setja þarf fram greinargott yfirlit þar sem auðvelt er að bera kostina saman. Gert er ráð fyrir því að efnistök í kostamatinu verði sem hér segir:
A. Inngangur um almenn atriði:
-
Markmið framkvæmdarinnar
-
Orkuþörf
-
Kerfiseiginleikar
-
Umhverfisaðstæður
-
Skipulagsáætlanir og stefna stjórnvalda
B. Matstafla, með skýringum um það hvernig fjallað er um hvern þátt í matinu. Matstaflan er samræmt töfluform sem notað er fyrir alla kostina til þess að tryggja sem auðveldastan samanburð. Dregnir verða fram ýmsir eiginleikar eða áhrif sem hver kostur er líklegur til að hafa á margvíslega þætti. Fyrirfram má ætla að þættirnir verði u.þ.b. þessir, með fyrirvara um breytingar meðan á matinu stendur:
Almennir þættir:
Gerð, spennustig, lega, lagning, endingartími, framkvæmdatími
Kerfisþættir:
Afhendingaröryggi, gæði, flutningstöp, rekstraröryggi
Umhverfisþættir:
Áhrif á landslag, ásýnd, yfirborð, gróður, dýralíf, verndarhagsmuni og aðra landnotkun
Hagrænir þættir:
Stofnkostnaður, heildarkostnaður, stækkunarmöguleikar og óbein áhrif á aðra
Fyrir hvern þátt er færð í töfluna stutt niðurstaða í tölum eða orðum, eftir því sem við á, og með vísun í ítarefni sem ýmist er að finna í viðauka við valkostaskýrsluna eða í öðrum gögnum.
Matstaflan er fyrst sýnd með útskýringum fyrir hvern þátt og síðan taflan útfyllt fyrir hvern kost sem er skoðaður. Hverjum kosti fylgir einnig uppdráttur sem sýnir legu línunnar eða strengsins.
C. Viðaukar um atriði sem ástæða er talin til að útskýra nánar.
Leitast verður við að geta um óvissu í niðurstöðum og orsakir hennar þegar erfitt er að gefa einhlítt svar.
3. Framlagning
Gert er ráð fyrir að drög að valkostaskýrslunni muni vera tilbúin til kynningar í byrjun september 2016 og verða drögin birt á www.landsnet.is