Á vorfundi Landsnets í mars sl. ræddi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra m.a. um áform um að stofna hagsmunaráð, sem lið í auknu samráði um uppbyggingu grunninnviða þar sem hún sagði m.a. að markmiðið með stofnun ráðsins, sem er ráðgefandi fyrir Landsnet, væri að efla enn frekar samráð og miðlun upplýsinga, þannig að áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun taki mið af áherslum hagsmunaaðila.
Landsnet hefur umsjón með hagsmunaráðinu en formaður ráðsins Páll Jensson prófessor við Háskólann í Reykjavík var skipaður samkvæmt ábendingu frá ráðherra og var fyrsti fundur ráðsins haldinn í dag. Hagsmunaráði er ætlað að stuðla að auknu samráði, auknum gagnkvæmum skilningi, leiða til nýrra lausna og aukinnar sáttar um framtíð flutningskerfis raforku.
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnet fagnar stofnun ráðsins:
„Við hjá Landsneti fögnum að ráðið sé orðið að veruleika. Nú gefst okkur tækifæri til að leiða saman ólíka hagsmunaaðila, draga fram nýjar hugmyndir um lausnir á ýmsum viðfangsefnum og ná fram betri skilningi. Fyrir okkur skiptir það miklu máli að eiga samtal og samráð við hagsmunaaðila og höfum við góða reynslu af vinnu með verkefnaráðum sem sett hafa verið á stofn í kringum einstaka verkefni. Hagsmunaráðið sem kom saman í dag er góð viðbót og mun verða ráðgjafandi fyrir okkur þegar kemur að málefnum og stefnumótun í uppbyggingu á flutningskerfi raforku.“
Formaður ráðsins er Páll Jensson frá Háskólanum í Reykjavík.