Fyrsta konan hjá Landsneti fær rofastjóraréttindi


20.04.2016

Framkvæmd

Kristveig Þorbergsdóttir er fyrsta konan sem öðlast réttindi sem rofastjóri hjá Landsneti og þar með halda karlavígin áfram að falla eitt af öðru.

Rofastjórar eru þeir sem hafa heimild til að stýra rofum í tengivirkjum fyrirtækisins að undangenginni bóklegri og verklegri þjálfun. Kristveig, sem er með masterspróf í verkfræði frá háskólanum í Lundi, hóf störf hjá Landsneti þegar hún kom heim úr námi árið 2012. Hún segir að það geti tekið nokkurn tíma að afla sér þessara réttinda því það þurfi að fá þjálfun í nokkrum tengivirkjum.

Réttindin sem Kristveig hefur nú öðlast eru til að stýra rofum í 66 kV tengivirkjum og segist hún með tímanum væntanlega vinna að því að fá réttindi á tengivirkjum með hærri spennu. Kristveig stýrði rofum fyrst með formlegum hætti í tengivirki Landsnets á Hellu og segir hún að það hafi gengið vel. Með henni á vettvangi var Theodór Jónsson kollegi hennar sem var einnig að fá réttindi sem rofastjóri hjá Landsneti.
Aftur í allar fréttir