Landsnet hefur í hyggju að endurnýja samninga við Landsvirkjun um kaup á reiðuafli. Annars vegar er fyrirhugað að endurnýja fyrir 30. apríl nk. samning um reiðuafl í Fljótsdalsstöð. Hins vegar er fyrirhugað að endurnýja fyrir 31.desember nk. samning um reiðuafl á Þjórsársvæði.
Um er að ræða 30 MW reiðuafl í Fljótsdalsstöð og önnur 30 MW á Þjórsársvæði. Nánar er fjallað um reiðuafl og kerfisþjónustu í reglugerð nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu og í Netmála C2: Skilmálar um kerfisþjónustu Landsnets hf. Jafnframt vísar Landsnet til skilgreininga og tæknilegra krafna til aflvéla, sem fram koma í nýjasta samningi við Landsvirkjun um reiðuafl á Þjórsársvæði og Blöndu, sem tók gildi 1. janúar 2017 og finna má á heimasíðu Landsnets.
Landsvirkjun er í dag eini aðilinn á Íslandi sem uppfyllir þær kröfur sem Landsnet gerir til tíðnistýrðs reiðuafls. Landsnet metur það hins vegar svo að það sé æskilegt að til staðar séu fleiri aðilar á þessum markaði og hvetur því markaðsaðila á raforkumarkaði að skoða hvort þeir séu viljugir og hæfir til þess að veita þessa mikilvægu þjónustu.
Landsnet áformar á árinu að auglýsa eftir þátttakendum í nýsköpunarsamstarf en þar mun aðilum gefast tækifæri til að þróa þjónustu sína í samstarfi við Landsnet þannig að hún uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til reiðuafls.
Hafi aðilar athugasemdir við endurnýjun samninga við Landsvirkjun eru þeir hvattir til að koma þeim á framfæri við Landsnet fyrir 22. mars 2018 á tölvupóstfangið landsnet@landsnet.is með efnislínu merkta „Reiðuafl 2018, athugasemdir“.