Framtíðin, flutningskerfið og umræðan


27.09.2020

Framkvæmd

Rafvædd framtíð er kjarninn í framtíðarsýn okkar hjá Landsneti. Á hverju ári leggjum við fram Kerfisáætlun þar sem línur eru lagðar fyrir framtíðina – línur sem byggðar eru upp með nútímalegum hætti og um þær þarf að ríkja eins breið sátt og mögulegt er.

Allar áherslur okkar miða að því að skapa samfélaginu, viðskiptavinum og eigendum  virði með tryggu afhendingaröryggi, hagkvæmum rekstri flutningskerfisins og hámörkun nýtingar á innlendri endurnýjanlegri raforku á eins umhverfisvænan hátt og mögulegt er. Þannig getum við í framtíðinni tryggt  jafnt aðgengi allra landsmanna að öruggri raforku sem  er ein helsta forsenda nútímasamfélags.

20 umsagnir, athugasemdir og tillögur bárust
Kerfisáætlun hefur nú verið í umsagnarferli í sumar og skiluðu 20 aðilar og fyrirtæki inn umsögnum. Við höfum svarað hverri og einni og munu umsagnirnar ásamt svörum verða birtar á vef Landsnets www.landsnet.is í lok mánaðarins, á sama tíma og uppfærð Kerfisáætlun ásamt umsögnunum verður skilað inn til Orkustofnunar til samþykktar. 

Mismunandi skoðanir á framtíðinni
Við gerum okkur grein fyrir því að Kerfisáætlun Landsnets hefur áhrif á hagsmuni mjög margra  eins og Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitunnar benti á í Fréttablaðinu í gær þar sem umsögn Orkuveitunnar um Kerfisáætlun var til umfjöllunar. Án þess þó að svara umsögn þeirra hér þá langar mig að skerpa á þremur  atriðum sem komu fram í viðtalinu sem mikilvægt er að hafa með  inn í umræðuna á næstu vikum.
 
Fyrsti punkturinn er að ef þær fjárfestingar sem boðaðar eru til næstu 10 ára í Kerfisáætlun ná fram að ganga mun eignarstofn Landsnets ekki tvöfaldast eins og fram kemur í viðtalinu heldur mun hann hækka um 30 % að teknu tilliti til afskrifta. 

Annar  snýr að sviðsmyndum sem notaðar eru sem forsendur Kerfisáætlunar en rétt er að taka fram að allar spár um þróun raforkunotkunar ásamt sviðsmyndum um mismunandi þróun  koma beint frá Raforkuhópi orkuspánefndar og eru ekki útbúnar af Landsneti. Auk fulltrúa Orkustofnunar eru í raforkuhópnum aðilar á orkumarkaði sem ekki stunda samkeppnisviðskipti með raforku,  fulltrúar frá Landsneti og dreifiveitunum.  

Þriðji punkturinn snýr að orkumarkaðnum  á tímum samdráttar og  heimsfaraldurs.   Eins og forstjóri Orkuveitunnar bendir á þá er mikil óvissa hjá stórum notendum og samdráttur á orkumarkaði.  Nú í haust hefur þó staðan hægt og bítandi batnað og rekstur flestra fyrirtækjanna færst í betra horf.  Almennt þá er staðan á orkumarkaðnum  ágæt en þó er mikilvægt að hafa í huga að aðstæður geta breyst hratt. 

Að sama skapi, þrátt fyrir samdrátt og þegar horft er til framtíðar, þá finnum við fyrir miklum áhuga hjá nýjum aðilum til að tengjast við flutningskerfið og það er mikilvægt að við séum tilbúin fyrir framtíðina og stuðlum þannig að samkeppnishæfni landsins.  

Við hjá Landsneti sjáum alltaf tækifæri í að gera betur og gerum okkur grein fyrir að samtal og samvinna skilar okkur nær þeim árangri sem við viljum.  Við hlustum á ólíkar raddir og hagsmuni og vegum þá og metum inn í okkar áætlanir – þannig náum við þeim markmiðum sem við leggjum upp með í uppbyggingu nýrrar kynslóðar byggðalínu og tryggjum um leið öllum íbúum og fyrirtækjum í landinu örugga raforku.

Steinunn Þorsteinsdóttir 
upplýsingafulltrúi Landsnets

Aftur í allar fréttir