Flutningurinn á spennunum gekk í alla staði vel þrátt fyrir mikinn þunga og umfang þeirra. Útvega þurfti sérstaklega öflugan krana á vettvang til að hífa spennana af flutningabílnum á Stuðlum og koma þeim fyrir á sínum framtíðarstað í tengivirkinu.
Þessar framkvæmdir að Stuðlum eru fyrsti áfangi spennuhækkunar hringtengingarinnar Hryggstekkur-Stuðlar-Eskifjörður-Eyvindará, en hún mun auka flutningsgetu og áreiðanleika í svæðisflutningskerfinu á Austfjörðum þó svo meginflutningskerfið á svæðinu búi áfram við takmarkanir þar sem byggðalínan er fulllestuð. Með þessum framkvæmdum er Landsnet að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku hjá fiskimjölsverksmiðjum, sem hafa verið að skipta út olíukötlum fyrir rafskautakatla og munu þar með geta nýtt innlenda og umhverfisvæna orku í stað olíu.
Stuðlalína 1 er 132 kV jarðstrengur sem liggur frá tengivirkinu Hryggstekk í Skriðdal að tengivirkinu Stuðlum við Reyðarfjörð. Strengurinn var tekinn í notkun árið 2005 og hefur hingað til verið rekinn á 66 kV spennu en verður nú spennuhækkaður í 132 kV. Tengivirkið að Stuðlum er 66 kV útitengivirki, þar er nú verið að bæta við 132 kV útitengivirki.
Framkvæmdir hófust í júní 2013 og eru þær nú vel á veg komnar en samið var við Launafl ehf. um byggingarframkvæmdir og við Rafeyri ehf. um uppsetningu á rafbúnaði. Áætlað er að spennusetningu verði lokið fyrir árslok 2013. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 375 milljónir króna.