Kaflaskil verða í starfsemi Landsnets um áramót þegar Þórður Guðmundsson forstjóri lætur af störfum en hann hefur stýrt fyrirtækinu allt frá stofnun þess fyrir 10 árum. Starf forstjóra verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.
Það var stjórnarformaður Landsnets, Geir A. Gunnlaugsson, sem tilkynnti á ársfjórðungsfundi með starfsfólki fyrirtækisins í morgun að Þórður Guðmundsson hefði óskað eftir því við stjórn fyrirtækisins að láta af störfum um áramót. Kom jafnframt fram að auglýst yrði eftir nýjum forstjóra Landsnets á næstu dögum.Þórður Guðmundsson hefur gegnt starfi forstjóra frá því Landsnet tók til starfa 1. janúar 2005, eða í áratug. Hann sagði á fundinum í morgun að tími væri kominn til að stíga til hliðar og huga að öðrum hugðarefnum. Orkugeirinn væri búinn að vera sinn starfsvettvangur á fjórða áratug, allt frá því að hann lauk námi í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í Þrándheimi árið 1978. Þetta væru búin að vera gefandi og spennandi ár, fyrst hjá Landsvirkjun þar sem hann gegndi m.a. stöðu framkvæmdastjóra flutningssviðs, og ekki síður hjá Landsneti við að koma fyrirtækinu á legg og móta stefnuna til framtíðar í raforkuflutningsmálum Íslendinga.