Flutningskerfi raforku og orkuöryggi


16.10.2015

Framkvæmd

Fjárfestingar í raforkuframleiðslu og flutningskerfi raforkunnar verða að haldast í hendur ef ávinningur á að skila sér. Skortur á fjárfestingu í öðrum þættinum dregur úr ávinningi fjárfestingar í hinum þættinum sagði Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets, í erindi um íslenska raforkuflutningskerfið á vel sóttri ráðstefnu Háskólans í Reykjavík í gær um orkuöryggi á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

Orkuöryggi er mikilvægt alþjóðlegt viðfangsefni sem athyglin hefur beinst að í auknum mæli hérlendis á undanförnum árum og fjallaði erindi Írisar um hvort og hvernig þurfi að styrkja flutningskerfi raforku hér á landi. Hún benti m.a. á að ástand flutningskerfis raforku gæti bæði aukið eða dregið úr afhendingaröryggi rafmagns og því yrði ávallt að huga að stöðu flutningskerfisins hvort sem væri verið að meta ástand og horfur í raforkukerfa til lengri eða skemmri tíma.

Mikil rafmagnsnotkun og –framleiðsla á Íslandi kallaði á sterkt og öflugt flutningskerfi enda krefðust bæði viðskiptavinir og almenningur þess að bæði gæði og afhendingaröryggi rafmagns væru eins og best væri á kosið, hvort sem um væri að ræða til heimilisnota, fyrirtækjareksturs eða iðnaðarstarfsemi. Til að mæta þessu þyrfti raforkuflutningskerfið að vera bæði öflugt og sveigjanlegt, til að geta uppfyllt í senn kröfur um orku- og afhendingaröryggi og skilvirkni og kostnaðarhagkvæmni.


Snjallnetslausnir hafa skapað ótalmörg ný tækifæri í rekstri flutningskerfa og kynnti Íris stuttlega þær lausnir sem Landsent hefur verið að þróa á því sviði. Þannig væri stjórnstöð Landsnets nú orðin afar háþróuð tæknilega þegar kemur að bættri orkustjórnun og öllum rekstri kerfisins. Snjallnetslausnir einar duga þó ekki til, í ljósi stóraukinnar raforkuframleiðslu og flutninga er einnig nauðsynlegt að fjárfesta í uppbyggingu flutningskerfisins til að koma í veg fyrir flöskuhálsa sem nú væru að valda vandræðum í rekstrinum. Þannig væri bæði styrking flutningslína og snjallnetsvæðing kerfisins nauðsynlegir þættir til að mæta framtíðareftirspurn og þróun íslenska raforkukerfisins.


Auk Írisar töluðu á ráðstefnunni sérfræðingar frá MIT, Harvard og Tufts háskólunum, Brookings-stofnuninni, Háskólanum í Reykjavík og Landsvirkjun. Þar var m.a. kynnt nýtt og viðamikið samstarfsverkefni MIT-háskólans í Bandaríkjunum, Landsvirkjunar, Landsnets og Orkustofnunar um orkuöryggi á Íslandi, fjallað um möguleika á lagningu sæstrengs til Bretlands og virkjun vindorku á Íslandi.


Ráðstefnan var haldinn í tengslum við Arctic Circle Assembly og var samstarfsverkefni HR, Landsnets og Landsvirkjunar.

Aftur í allar fréttir