Fimm staurastæður brotnar í Laxárlínu 1


19.09.2013

Framkvæmd

Við skoðun á Laxárlínu 1 í gær kom í ljós að fimm staurastæður hafa brotnað í línunni vegna ísingarálags í óveðrinu sem gekk yfir landið um og upp úr helgi. Töluverðar truflanir urðu í flutningskerfi Landsnets í óveðrinu en þetta eru einu skakkaföllin sem kerfið varð fyrir svo vitað sé.

Viðgerð stendur nú yfir á Laxárlínu 1 milli Akureyrar og Laxárvirkjunar en það var fyrst í gær sem vinnuflokkar á vegum Landsnets komust á vettvang á Vaðlaheiði til að berja ísingu af línunni og kom þá staurabrotið í ljós. Þá hefur mikil ísing verið hreinsuð af Kröflulínu 2 og gert við skemmd á leiðara á Kröflulínu 1.

Viðgerð er einnig hafin á Flúðalínu 1, 66 kV jarðstreng úr tengivirkinu í Búrfelli sem bilaði fyrir tæpri viku, en sú bilun er ótengd óveðrinu. Við nánari skoðun kom í ljós að bilunin í strengnum var í árfarvegi Fossár og þarf að skipta um strenginn á 30-40 metra kafla. Framkvæmdir hófust í gær, búið er að plægja niður nýjan streng yfir Fossá og áætlað að viðgerð ljúki á laugardagskvöld.

 

Myndirnar hér að neðan sýna þar sem unnið er við að hreinsa ísingu af Kröflulínu 2

Aftur í allar fréttir