Flutningskerfi Landsnets var ekki fyrir neinum stórvægilegum áföllum í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær og nótt en þó er Kröflulína 1, milli Kröflu og Rangárvalla við Akureyri, úti. Byggðalínuhringurinn er því rofinn fyrir norðan en bilunin hefur ekki haft straumleysi í för með sér en rof á byggðalínuhringnum þýðir skert rekstraröryggi flutningskerfisins.
Viðgerðarflokkur er lagður af stað í bilanaleit fyrir norðan og á höfuðborgarsvæðinu er einnig unnið að viðgerð á Rauðavatnslínu 1, þar sem bilun varð í mastri rétt við tengivirkið á Geithálsi síðdegis í gær en það olli ekki straumleysi. Þá sló spennir í tengivirki á Prestbakka út á þriðja tímanum í nótt en um klukkustund síðar var hann kominn aftur inn.
Kröflulína 1 sló líka út á þriðja tímanum í nótt og er enn úti, eins og fyrr segir, en bilanaleit er hafin. Þá tókst að tengja Vestfirði á ný við meginflutningskerfið á öðrum tímanum í nótt eftir að Geiradalslína 1, milli Glerárskóga og Geiradals, sló úr rétt fyrir klukkan eitt vegna samsláttar. Snjallnetskerfið leysti þá strax út Breiðadalslínu 1 og ræsti upp varaaflsstöðina í Bolungarvík.
Myndin sýnir varaaflstöðina í Bolungarvík