Eignarnám heimilað vegna Suðurnesjalínu 2


27.02.2014

Framkvæmd

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur heimilað Landsneti að taka eignarnámi tiltekin landsréttindi á Reykjanesskaga vegna framkvæmda við Suðurnesjalínu 2, háspennulínu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkurbæjar. Reynt var til þrautar að ná samningum við alla landeigendur en nokkrir höfnuðu samningum og var því leitað eftir formlegri eignarnámsheimild í febrúar 2013, eins og raforkulög mæla fyrir.

Suðurnesjalína 2 mun liggja um eignarlönd 20 jarða á Reykjanesi en innan hverrar jarðar eru fjölmargir jarðapartar með sérstök landnúmer. Samningar tókust við meiri hluta landeigenda en nokkrir landeigendur höfnuðu samningum og hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra nú heimilað Landsneti að taka tiltekin landréttindi eignarnámi á viðkomandi landareignum, á grundvelli 23. greinar raforkulaga, nr. 65/2003. 

Í ákvörðun ráðuneytisins um að heimila eignarnám er rakið að öll skilyrði eignarnáms séu að mati ráðuneytisins til staðar, þ.e. skilyrði um lagafyrirmæli, að samningaleið hafi verið reynd til þrautar, að almenningsþörf liggi að baki, að nauðsyn beri til, að meðalhófs sé gætt og skilyrði um afmörkun eignarnáms. Í eignarnáminu felst ákveðinn afnotaréttur af viðkomandi jörðum fyrir Landsnet, í þágu framkvæmdarinnar.

Af hálfu Landsnets liggur næst fyrir að vísa málinu til matsnefndar eignarnámsbóta en um bætur fer samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms og sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur.

Brýnt að styrkja flutningskerfi raforku á Reykjanesi
Suðurnesjalína 2 verður hluti af almennu raforkuflutningskerfi Landsnets. Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 2,2 milljarðar króna og áætlaður framkvæmdatími hálft annað ár. Mannaflaþörf verkefnisins er 42 ársverk og ráðgert að allt að 50 manns vinni að því þegar umsvifin verða hvað mest.
Suðurnesjalína 2 er hluti af verkefninu Suðvesturlínur sem Landsnet hóf að undirbúa árið 2005 með það að markmiði að byggja upp raforkuflutningskerfi til framtíðar á Suðvesturlandi, allt frá Hellisheiði út á Reykjanes.

Umhverfismat vegna framkvæmdanna var samþykkt með skilyrðum árið 2009 og í ársbyrjun 2011 hófst undirbúningur að sjálfri framkvæmdinni. Þá var ákveðið að byrja á að styrkja raforkuflutningskerfið á Suðurnesjum, þar sem þörfin er brýnust bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis, með því að reisa 220 kV háspennulína meðfram núverandi Suðurnesjalínu 1. 

Suðurnesjalína 2 mun að miklu leyti fylgja núverandi Suðurnesjalínu 1 frá tengivirkinu í Hamranesi í Hafnarfirði að tengivirki við Rauðamel norðan Svartsengis í Reykjanesbæ, nema austast á svæðinu þar sem gert er ráð fyrir að hún liggi í nýju línubelti töluvert fjær núverandi byggð í Hafnarfirði. Landraski verður haldið í lágmarki og jafnframt er orðið við tilmælum sveitarfélaga á svæðinu og helstu fagstofnana um að nýja línan verði reist í núverandi mannvirkjabelti, þar sem fyrir eru Suðurnesjalína 1 og Reykjanesbraut.

Núverandi Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskaga við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni oft valdið straumleysi og vandkvæðum. Flutningsgeta línunnar, sem rekin er á 132 kV spennu, er fullnýtt. Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, sem valdið getur verulegu tjóni hjá notendum. Það er því brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt sem fyrst. Tvær háspennulínur í stað einnar munu auka verulega rekstraröryggi raforkukerfisins á svæðinu.

Frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 

Aftur í allar fréttir