„Ég er í góðu sambandi við þvottavélina…“ #landsnetslífiðátímumCovid


23.11.2020

Framkvæmd

Sagði Halldór Örn Svansson sem vinnur við fageftirlit rafbúnaðar hjá okkur, eða Dóri eins og hann er alltaf kallaður, þegar við heyrðum í honum í morgun og ræddum lífið hjá Landsneti á þessum sérkennilegu tímum.

Spjallið snérist ekki bara um þvottavélina en Dóri, eins og við öll, hefur unnið mikið heima það sem af er þessu ári.

„Ég hef eins og mjög margir á Íslandi, og sennilega í heiminum, unnið mikið heima á þessu ári. Mitt svið, Framkvæmda- og rekstrarsvið, byrjar flesta daga á morgunspjalli eða hittingi á Teams. Það hefur gert mikið að heyrast yfir kaffibolla og sjá samstarfsfólk „í reallife“.  Síðan taka við mismargir Teamsfundir um hin mörgu verkefni sem eru í gangi en við erum að vinna í flestum landshornum. Ég hef það þó umfram marga að vera í þeirri stöðu að þurfa að fara töluvert út í verkin, þ.e.a.s. fara út í mörkina. Það hefur gert mikið fyrir mig.“

Spurður um skilin á milli vinnu og einkalífs í heimavinnunni segist hann hafa lagt mikið upp úr því að brjóta upp daginn, að hafa eins mikil skil á milli og hægt er.

„Ég hef reynt að hætta í vinnunni um klukkan fjögur þegar ég er heima við, þó að það hafi ekki alltaf tekist. Stelpurnar mínar hafa verið í skertum skóla og þær hafa verið á sitthvoru rólinu, þannig að önnur fer kl.8:00 og er til 11. Á meðan hin mætir rúmlega 11 og er til að verða 14:30. Ég hef reynt að brjóta upp dagana eins mikið og ég get og á í miklu og góðu sambandi við þvottavélina.“ Segir Dóri og hlær en við vinnufélagarnir hans vitum að hann er vel liðtækur á því sviði. En lífið hefur líka snúist um hestana sem fjölskyldan á. „Ég bý svo vel að hesthúsið er nálægt og nóg að gera þar eftir vinnu en helgarnar eru stundum of stuttar þegar kemur að hestunum.“

Dóri segir vinnuna hafa gengið vel og hún sé í raun svipuð því og ef hann væri á Gylfaflötinni, fyrir utan það að síminn og Teams er notað meira því margt sem kallar á símtal hefði verið leyst með samtali á Gylfaflötinni.

„Þetta hefur heilt yfir gengið vel og jákvæður punktur að mér finnst fundirnir í rafheimum vera skilvirkari og styttri þegar þeir eru í Teams. Það er kannski eitthvað sem við getum tekið með okkur þegar lífið kemst aftur í fyrra horf.“

Aftur í allar fréttir