Breyting á gjaldi virkjana í takt við nýja tíma


01.04.2022

Framkvæmd

Þann 1.apríl verður breyting á flutningsgjaldskrá Landsnets, gjaldskrá framleiðenda mun hækka en lækka hjá stórnotendum og dreifiveitum.

Þann 1.apríl verður breyting á flutningsgjaldskrá Landsnets, gjaldskrá framleiðenda mun hækka en lækka hjá stórnotendum og dreifiveitum.  

Breytingarnar fela í sér að færa hluta af gjöldum notenda yfir á framleiðslu.  Úttektargjald notenda mun lækka um 13,6% hjá stórnotendum og 7,9% hjá dreifiveitum. Breytingin hefur ekki áhrif á heildartekjur félagsins, heldur er eingöngu um tilfærslu á tekjum að ræða.

“ Núverandi uppbygging flutningsgjaldskrár Landsnets hefur verið óbreytt frá árinu 2007 þrátt fyrir að raforkumarkaðurinn hefur breyst frá þeim tíma. Mikilvægt er að þróa flutningsgjaldskránna í takt við nýja tíma og fjölbreyttari þarfir. Því var ákveðið að fara í heildarendurskoðun á gjaldskránni og unnum við breytingarnar í samráði við hagsmunaaðila. Til lengri tíma litið munu breytingarnar hjálpa til við  hagkvæma uppbyggingu flutningskerfisins og þannig verðum við betur undirbúin fyrir framtíðina. Með breyttu innmötunargjaldi stuðlar gjaldskráin að sanngjarnari skiptingu kostnaðar milli notenda og virkjana, jafnræði meðal framleiðanda og er hlutlaus varðandi mismunandi framleiðslutækni. Einnig eykur hún gagnsæi þar sem gjaldið endurspeglar raunkostnað virkjana og stuðlar að því að sá sem veldur kostnaði í flutningskerfinu greiði hann. ” segir Svandís Hlín Karlsdóttir forstöðumaður viðskiptatengsla og þróunar.  

Gjaldskrá vegna flutningstapa

Flutningstöp eru boðin út á þriggja mánaða fresti og endurspeglar gjaldskrá vegna flutningstapa raforkuverð á markaði hverju sinni. Sökum slæms vatnsárs og lágrar stöðu lóna á fyrri hluta árs 2022 hefur reynst erfitt að afla orku sem þarf í flutningstöp fyrir annan ársfjórðung ársins og hafa raforkuverð í flutningstöp þar af leiðandi hækkað.

Nú liggur fyrir áætlaður kostnaður á flutningstöpum fyrir annan ársfjórðung 2022 og mun gjald vegna flutningstapa verða 387,73 kr. á MWst. Gjaldið fyrir fyrsta ársfjórðung 2022 var 124,06 kr. á MWst.  

Kostnaður vegna flutningstapa er um 0,45% af heildar raforkukostnaði til heimilanna og nemur breytingin því um 1,2% hækkun til heimila. Sem dæmi mun 5.000 kr. heimilisreikningur hækka um u.þ.b. 60 kr.

Nánari útfærslu, upplýsingar og gögn er að finna á heimasíðu okkar og hægt að finna á tenglinum hér að neðan. Gjaldskrá (landsnet.is)

Aftur í allar fréttir