Framtíðin er ljós
- Sterk fjárhagsstaða og styrkar stoðir til framtíðar
Ársreikningur Landsnets 2023 var samþykktur á fundi stjórnar í dag, 15. febrúar 2024.
Helstu atriði ársreikningsins:
- Hagnaður nam 25,6 milljónum USD (3.482,2 millj.kr)1 á árinu 2023 samanborið við 32,5 milljónir USD (4.426,6 millj.kr.) hagnað á fyrra ári.
- Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 52,7 milljónum USD (7.175,7 millj.kr.) samanborið við 55,1 milljónir USD (7.505,2 millj.kr) á fyrra ári.
- Handbært fé í lok árs nam 54,3 milljónum USD og handbært fé frá rekstri nam 72,5 milljónum USD.
- Heildareignir námu 1.113,6 milljónum USD í árslok samanborið við 1.032,4 milljónir USD í lok fyrra árs.
- Eigið fé nam 507,5 milljónum USD í árslok og eiginfjárhlutfall 45,6%.
- Arðsemi eigin fjár, á árgrundvelli, var 5,2% á árinu 2023.
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir niðurstöður ársreikningsins sýna að vel hafi tekist til í umhverfi þar sem óvæntar bilanir og náttúruöflin spiluðu stórt hlutverk.
„Það ánægjulegt að ársreikningur sem samþykktur var í dag sýnir að fjárhagsleg staða okkar hjá Landsneti er góð þrátt fyrir miklar áskoranir.
Eldgos og jarðhræringar á Reykjanesi settu mark sitt á árið en við lögðum allt kapp á að verja okkar innviði á svæðinu við Svartsengi sem sönnuðu gildi sitt nú í febrúar. Landsnet er stolt af því að vera virkur þátttakandi í því að verja innviði á Reykjanesi. Það hafa ekki orðið skemmdir á flutningskerfinu í jarðhræringunum en áfram er unnið við varnir innviða við Svartsengi í ljósi stöðunnar þar. Við aðstæður eins og þessar kemur mikilvægi þess að hafa öruggt aðgengi að rafmagni vel í ljós.
Viðgerðin á Vestmannaeyjastreng reyndi mikið á reksturinn, bæði tækni- og fjárhagslega en þar voru mál leyst með útsjónarsemi á mjög hagkvæman hátt.
Síðasta ár var mikið framkvæmdaár þrátt fyrir að fjárfestingar ársins séu undir áætlun en ástæðan fyrst og fremst tafir við upphaf framkvæmda Suðurnesjalínu 2.
Jafnframt var unnið af krafti að bættu orkuöryggi til framtíðar með auknu gagnsæi og nútímalegri viðskiptaháttum. Í því samhengi gáfum við út fyrstu orkuspá Landsnets sem setti mikinn svip á umræðu um orkumálin á árinu og tókum í notkun nýtt reiknilíkan til að meta framboðsöryggi næstu ára.
Við stöndum á sterkum grunni og erum vel í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í til að tryggja orkuskiptin, en stöðugt rekstrarumhverfi, gagnsætt og virkt viðskiptaumhverfi ásamt styrkingu flutningskerfisins eru þar efst á blaði hjá okkur.”
Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs, netfang gudlaugs@landsnet.is, sími 563-9300.
Hér er hægt að nálgast ársreikninginn.