Orkustofnun hefur samþykkt kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2023-2032. Með samþykktinni er stigið mikilvægt skref varðandi bætta nýtingu virkjana og vatnasvæða þar sem allar framkvæmdir í fyrsta hluta nýrrar kynslóðar byggðalínu eru komnar á samþykkta framkvæmdaáætlun fyrirtækisins.
“Í því felst að komin verður á ný samfelld 220 kV tenging frá Hvalfirði, norður um land og inn á Austurlandskerfið í gegnum nýtt 220 kV tengivirki á Hryggstekk í Skriðdal. Ávinningurinn af því er að hægt verður að auka flutning á orku á milli landshluta og hámarka þannig nýtingu uppistöðulóna á öllu landinu í misjöfnum vatnsárum og auka nýtingu núverandi virkjana um að minnsta kosti 300 GWh á ári. Beinn þjóðhagslegur ávinningur af þessari auknu orkunýtingu hefur verið áætlaður yfir 5 milljarðar árlega og munu þessar framkvæmdir því borga sig upp á fáum árum“ segir Gnýr Guðmundsson forstöðumaður kerfisþróunar.
Áætlanir Landsnets eins og þær eru settar upp í kerfisáætlun munu einnig styðja við þriðju orkuskiptin sem nú eru hafin. Sem dæmi um ávinning þá mun Austurland með öllum þeim fiskimjölsverksmiðjum sem þar eru starfræktar færast inn fyrir þekktan flöskuháls í kerfinu og fá þannig aukið aðgengi að orku auk þess sem aflskerðingar til þeirra munu heyra sögunni til. Verður þá hægt að snúa ofan af þeim öfugu orkuskiptum sem fiskimjölsverksmiðjurnar hafa verið að ganga í gegnum að undanförnu með uppsetningu á nýjum olíukötlum til að keyra verksmiðjurnar.
Ný kynslóð byggðalínu mun einnig hafa það í för með sér að 132 kV kerfið á Norðurlandi fær nýtt hlutverk sem svæðisbundið flutningskerfi og leiðir þannig til tækifæra til orkuskipta sem og atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Til að bæta möguleika til nýtingar hefur verið ákveðið að setja upp nýjan afhendingarstað á Laugarbakka sem mun m.a. styðja við uppbyggingu hleðsluinnviða fyrir bæði einkabíla og vöru- og fólksflutningabíla sem í vaxandi mæli munu rafvæðast á næstu árum.
Nýjar virkjanir á sjóndeildarhringnum
Á samþykktri framkvæmdaáætlun má einnig finna tvær nýjar framkvæmdir sem snúa að tengingu nýrra virkjanakosta. Er þar annars vegar um að ræða tengingu Búrfellslundar, sem er fyrsti vindorkugarðurinn sem Landsnet mun tengja við flutningskerfið, og hins vegar tengingu Hvammsvirkjunar í Þjórsá en samhliða tengingunni verður settur upp nýr afhendingarstaður sem mun þjóna sem fæðing inn á Suðurlandskerfið og auka þannig möguleika á nýtingu raforku á svæðinu og bæta afhendingaröryggi.
Kerfisáætlun Landsnets má finna hér