Breyting á flutningsgjaldskrá Landsnets tekur gildi 1. janúar 2024


29.12.2023

Framkvæmd

Innmötunargjald  og samsetning flutningsgjalda í gjaldskrá Landsnets

Samsetning gjalda í flutningsgjaldskrá breyttist í apríl 2022, þar sem innmötunargjald, sem er gjald sem orkuframleiðendur greiða, var bætt inn í gjaldskrána.

Við breytinguna lækkaði gjaldskrá til dreifiveitna um 7,9% og gjaldskrá til stórnotenda lækkaði um 13,6% en heildartekjur Landsnets héldust óbreyttar þar sem eingöngu var um tilfærslu á tekjum milli viðskiptavinahópa Landsnets að ræða. Í kjölfarið höfðaði Landsvirkjun mál gegn Landsneti og Orkustofnun þar sem krafist var viðurkenningar á því að óheimilt hafi verið að leggja á umrætt innmötunargjald. Dómur var kveðinn upp í Landsrétti föstudaginn 20. október 2023 þar sem niðurstaða dómsins var sú að fallast á kröfur Landsvirkjunar. Vegna niðurstöðu dómsins verður  flutningsgjaldskrá Landsnets sett aftur í fyrra horf þar sem innmötunargjald fer aftur yfir á hluta gjalda vegna úttektar til stórnotenda og dreifiveitna.

Breytingin hefur þau áhrif að gjaldskrá til dreifiveitna hækkar um 7,52% og gjaldskrá til stórnotenda hækkar um 14,03%. Heildartekjur Landsnets munu haldast óbreyttar þar sem innmötunargjald lækkar að sama skapi og breytist aftur í fast afhendingargjald og hefur því umrædd breyting ein og sér ekki áhrif á kostnað notenda.

Innmötunargjald til viðskiptavina yfir tímabilið október til desember árið 2023 var ekki innheimt vegna niðurstöðu Landsréttar. Óskað hefur verið eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Breyting á flutningsgjaldskrá til stórnotenda og dreifiveitna

Flutningsgjaldskrá Landsnets er í samræmi við tekjumörk sem Orkustofnun setur Landsneti á hverjum tíma. Við endurmat á flutningsgjaldskrá vegna úttektar fyrir árið 2024 kom í ljós þörf á 11% hækkun til stórnotenda og 7% hækkun til dreifiveitna, óháð breytingu á samsetningu flutningsgjaldskrár Landsnets eins og rakið er að ofan. Forsendur við endurmat á flutningsgjaldskrá er að finna á heimasíðu Landsnets, www.landsnet.is

Kostnaður vegna flutnings raforku nemur um 10-15% af heildar raforkukostnaði heimila og nemur því hækkunin um 1%. Það þýðir, sem dæmi, að hækkun á 5.000 kr. heildarorkureikningi heimilis hækkar um 50 kr.

Gjaldskrá vegna flutningstapa

Landsnet hefur keypt orku vegna grunntapa fyrir heilt ár yfir tímabilið júlí 2023 til júní 2024 þar sem mikilvægt er að tryggja grunntöp fram á mitt næsta ár vegna óvissu um áframhaldandi framboðsstöðu orku.

Hefðbundið útboð fyrir viðbótartöp hefur nú einnig farið fram fyrir fyrst ársfjórðung 2024. Kostnaður við fyrsta ársfjórðung 2024 liggur nú fyrir ásamt því að tekið hefur verið tillit til kostnaðar 2023. Gjald vegna flutningstapa hækkar um 7,5% og verður 195,37 kr. á MWst. frá og með 1. janúar 2024 og fer úr 181,82 kr. á MWst. 

Gjaldskrá Landsnets vegna flutningstapa endurspeglar innkaupsverð raforku hverju sinni. Innkaupsverð Landsnets á flutningstöpum er mismunandi milli ársfjórðunga þar sem raforkuverð sveiflast eftir árstíðum.

Aðrir gjaldskrárliðir munu haldast óbreyttir.

Sjá má þróun á gjaldskrá, ásamt frekari upplýsingum á meðfylgjandi slóð: https://landsnet.is/vidskipti/gagnabanki/

 

Aftur í allar fréttir