Starfsfólk Landsnets minntist þess með vöfflukaffi og rjómatertu í dag að 30 ár eru frá því að síðasti áfangi byggðalínuhringsins var tekinn í notkun. Lagning byggðalínunnar er eitt mesta umhverfisátak sem ráðist hefur verið í hérlendis og dró verulega úr gróðurhúsaáhrifum þegar skipt var yfir í innlenda endurnýjanlega orkugjafa í stað olíu.
Undirbúningur þessarar umfangsmiklu framkvæmdar hófst í kjölfar olíukreppunnar í upphafi áttunda áratugarins og hefur byggðalínan skilað Íslendingum miklum þjóðhagslegum ávinningi, bæði fjárhagslegum og umhverfislegum, á þessum þremur áratugum. Tímabært er hins vegar orðið að ráðast í nýtt átak því byggðalínan annar ekki lengur álaginu sem fylgir stöðugt vaxandi orkuþörf stórra sem smárra fyrirtækja um land allt.Vistvæn innlend orka í stað olíu
Áður en byggðalínan kom til sögunnar má segja að raforkukerfi Íslands hafi skipst í fjórar „raffræðilegar“ eyjar þar sem rafmagn var að hluta framleitt með vatnsaflsvirkjunum og að hluta með dísilrafstöðvum. Þegar olíukreppan skall á árið 1973, með meira en fjórfalt hærra olíuverði en verið hafði, gjörbreyttist staðan. Strax var hafist handa við að undirbúa aðgerðir til að nota innlenda orkugjafa í stað olíu og í framhaldinu var ráðist í átak til að auka nýtingu jarðvarma við húshitun. Einnig var gripið til aðgerða til að auka notkun innlendra orkugjafa, vatnsorku og jarðvarma, við framleiðslu raforku og minnka raforkuframleiðslu með olíu sem var umtalsverð. Það sést best á því að fyrir tíma byggðalínunnar voru framleiddar tæplega 70 gígavattstundir (GWh) á ári af raforku með olíu en eftir að hún kom til sögunnar minnkaði raforkuframleiðsla með olíu í um 3 GWh/ári.
Hart var deilt á sínum tíma um hvernig haga skyldi þessum málum, s.s. um hvort virkja skyldi í héraði og styrkja hvert svæði um sig eða tengja landið saman í eitt kerfi. Var m.a. horft til þess af hálfu raflínunefndar, sem skipuð var 1972 til að vinna að tengingu Norðurlands við Búrfellsvirkjun og framtíðarvirkjanir á Þjórsársvæðinu með háspennulínu, að leggja línu norður Sprengisand og niður í Eyjafjörð. Af því varð þó ekki af veðurfarslegum ástæðum og í staðinn var lagt til að lögð yrði lína nokkurn veginn meðfram þjóðveginum norður í land, þ.e. farin byggðaleið fremur en hálendisleið og í framhaldinu varð til hugtakið „byggðalína“.
1.100 km á 12 árum
Byggðalínan var undirbúin og reist á árunum 1972 til 1984 og liggur hún frá Brennimel í Hvalfirði norður og austur um land í Sigöldu auk þess sem lína frá Hrútatungu til Vestfjarða tilheyrir henni. Fyrsti áfanginn var reistur árið 1974 milli Akureyrar og Skagafjarðar og árið 1976 var lögð lína úr Borgarfirði norður yfir Holtavörðuheiði. Gárungar kölluðu hana „rauða hundinn norður“ vegna þess að Alþýðubandalagsmaðurinn Magnús Kjartansson hafði sem iðnaðarráðherra tekið pólitíska ákvörðun um framgang málsins. Raflínunefndinni var einnig falið að kanna annars vegar aðstæður fyrir háspennulínu frá Akureyri um Kröflusvæðið og Egilsstaði til Hafnar í Hornafirði og hins vegar fyrir raflínu til að tengja Snæfellsnes og Vestfirði við meginflutningskerfi landsins. Rökrétt framhald þessara framkvæmda var svo lagning línu með suðurströndinni að Sigöldu, til að ná fram hringtengingu um meginhluta landsins sem „skipti gríðarlega miklu máli fyrir öryggi í raforkuafhendingu“, eins og sagði í áfangaskýrslu nefndarinnar 1975.
Endar byggðalínunnar náðu saman við Sigöldu árið 1984 og kom það í hlut Sverris Hermannssonar iðnaðarráherra þann 10. nóvember og taka formlega í notkun Prestbakkalínu, 250 km langa línu frá Hornafirði að Sigöldu, og loka byggðalínuhringnum sem var þá orðinn tæplega 1.100 km langur.
Framkvæmdir höfðu þá staðið yfir í nær samfellt 12 ár, fyrst á vegum Rafmagnsveitna ríkisins en undir lokin á vegum Landsvirkjunar sem tók við byggðalínunni í ársbyrjun 1983. Rekstur hennar og eignarhald fluttist svo til Landsnets við stofnun fyrirtækisins í ársbyrjun 2005.
Þörf á nýju átaki í uppbyggingu flutningskerfisins
Margoft hefur komið fram hjá forsvarsmönnum Landsnets að þörf sé orðin fyrir sambærilegt átak í styrkingu raforkuflutningskerfisins og átti sér stað þegar ráðist var í gerð byggðalínunnar. Hún hefur staðið sig ágætlega þessa þrjá áratugi en nú er svo komið að kerfið annar ekki álaginu. Tjón vegna rekstrarerfiðleika hafa aukist umtalsvert síðustu misserin, samkeyrsla vatnsmiðlana er erfið og enn þarf að keyra ýmsa atvinnustarfsemi á olíu, með tilheyrandi mengun og kostnaði, allt vegna takmarkaðrarflutningsgetu byggðalínunnar.
Til að bæta úr þessu hefur Landsnet um árabil verið með áætlanir um styrkingu byggðalínunnar frá Blönduvirkjun til Akureyrar og áfram austur í Fljótsdal. Einnig er nú unnið að mati á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu, sem myndi tengja betur raforkukjarnann á Suðurlandi við Norðurland. Sú tenging, ásamt fyrrnefndri styrkingu milli Blöndu- og Fljótsdalsstöðvar, myndi létta mjög á byggðalínunni og vera fljótvirkasta lausnin til að ráða bót á þeim bráðavanda sem Landsnet stendur frammi fyrir í dag í rekstri raforkuflutningskerfisins.
Jafnframt þessu þarf að horfa til lengri framtíðar varðandi uppbyggingu raforkuflutningskerfisins og taka mið af líklegri þróun, s.s. í takt við rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Flutningskerfið verður að vera í stakk búið til að mæta framtíðarkröfum um flutning raforku og einnig þarf að vera til staðar svigrúm til að mæta óvæntum atburðum, s.s. bilunum af völdum náttúruhamfara eða af öðrum orsökum. Eins og staðan er nú búa notendur einfaldlega ekki við nægilega mikið orkuöryggi - eins og yfirstandandi náttúruvá vegna hugsanlegra eldsumbrota í Bárðarbungu hefur m.a. leitt í ljós.