Byggðalína úr bráðri hættu á Breiðamerkursandi


18.11.2014

Framkvæmd

Vegna ágangs sjávar hefur byggðalínan austan við Jökulsá á Breiðamerkursandi verið færð lengra upp á ströndina á nokkur hundruð metra kafla. Einungis er þó um bráðabirgðalausn að ræða og þörf á framtíðarlausn til að vernda innviði samfélagsins á þessum slóðum, s.s. brúar- og vegasamband, raflínu- og ljósleiðarasamband.

Flutningur byggðalínunnar við Jökulsárlón gekk mjög vel þegar tækifæri gafst til að ráðast í verkefnið. Upphaflega var stefnt að flutningnum í vor en sökum mikils álags á byggðalínukerfinu gekk það ekki en tækifærið til að klára verkið svo gripið á dögunum þegar færi gafst milli viðhaldsverkefna eystra. Áður var búið að ganga frá nýjum uppistöðum og gera allt klárt og einungis eftir að flytja möstrin eða stæðurnar þegar vaskur hópur starfsmanna Landsnets og verktaka hófst handa við mastraflutninginn sunnudaginn 9. nóvember. Síðdegis á þriðjudegi, eða tveimur og hálfum degi síðar, var verkinu lokið og straumur kominn aftur á línuna.

„Við fórum í þetta nauðbeygðir. Það er verulegur ágangur sjávar og sjávarkamburinn ansi stutt frá línunni, þar sem styst var,“ sagði Guðlaugur Sigurgeirsson, deildarstjóri netrekstrar hjá Landsneti, í samtali við Morgunblaðið sl. föstudag.

Landsnet hefur fylgst með þróun landbrots á strandlengjunni austan við Jökulsá á Breiðamerkursandi um nokkurra ára skeið. Árið 2002 mældist vegalengdin frá háspennumastri sem er næst sjávarkambinum 41 metri, fjórum árum síðar, árið 2006, var fjarlægðin orðin 21 metri og eftir mikið landbrot í fyrravetur voru aðeins 11 metrar í línuna þar sem styst var. Til að forða línunni var hún flutt nær veginum á um 20 til 100 metra á nokkur hundruð metra kafla. Þar er þó einungis um bráðabirgðalausn að ræða. Landrofið hefur lengi verið vandamál og vitað að bæði hringvegur, brú, byggðalína og ljósleiðari eru í hættu.

„Það þarf að hanna framtíðarlausn,“ sagði Guðlaugur. Gerðar hafa verið áætlanir um færslu vegarins fjær ströndinni en þó þannig að brúin verði áfram notuð og ströndin jafnframt varin.
Aftur í allar fréttir