Iðnaðarráðherra segir löngu tímabært að lyfta umræðunni um uppbyggingu flutningskerfis raforku upp úr þeim skotgröfum sem hún hefur verið í með og móti einstökum framkvæmdum.
Þetta kom fram á haustfundi Landsvirkjunar í gær þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra gerði m.a. að umtalsefni nýfjarfestingar og eftirspurn eftir raforku. Til að mæta tækifærðum á sviði nýfjárfestinga sagði ráðherra að huga þyrfti betur að uppbyggingu flutningskerfisins því víða séu flöskuhálsar og erfiðleikar við rekstur kerfisins í dag og þeir muni bara vaxa eftir því sem eftirspurn eftir raforku aukist.„Hér er því brýnt að grípa til markvissra aðgerða og er þetta vandamál ekki afmarkað við nýjar fjárfestingar heldur alla almenna notendur raforku í landinu,“ sagði ráðherra. Hún áréttaði að nú væri búið að leggja fram á Alþingi tvö mikilvæg þingmál sem beinast að flutningskerfi raforku. Annars vegar frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum sem ætlað er að treysta grundvöll og undirbúning kerfisáætlunar Landsnets um uppbyggingu flutningskerfis raforku, og hins vegar tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.
„Það er afar brýnt að við reynum að ná fram meiri sátt við undirbúning framkvæmda í flutningskerfinu og lykilatriði í því er að gefa hagsmunaaðilum meira svigrúm til að koma sínum sjónarmiðum og ábendingum á framfæri fyrr í ferlinu en verið hefur. Einnig að við undirbúning framkvæmda liggi fyrir skýr viðmið og meginreglur sem gefi Landsneti færi á að horfa ekki eingöngu til fjárhagslega hagkvæmasta kostsins, heldur einnig til annarra mikilvægra atriða. Eru þetta grundvallarstefin í þessum þingmálum,“ sagði ráðherra og bætti við að það væri trú sín að með samþykkt þessara þingmála verði stigið skref nær því að ná fram heildstæðri framtíðarsýn um það hvernig megi með ábyrgum og skynsamlegum hætti standa að þróun og uppbyggingu þeirra mikilvægu innviða sem felast í flutningskerfi raforku.
Vék ráðherra sérstaklega að góðu samstarfi við Sambandi íslenskra sveitarfélaga við undirbúning þessara þingmála en eitt helsta ágreiningsmálið í gegnum tíðina hafi verið samspil kerfisáætlunar við skipulagsvald sveitarfélaga.
„Ég tel að við höfum náð að leysa það mál með farsælum hætti og í frumvarpinu um kerfisáætlun er kveðið á um mjög ítarlegt og vandað samráðsferli við undirbúning kerfisáætlunar sem og um skýra stöðu kerfisáætlunar í skipulagi sveitarfélaga.“ Ráðherra sagðist nefna þetta sérstaklega því allt of oft færu mál sem tengdust flutningskerfi raforku í gamalkunnar skotgrafir í almennri umræðu, alfarið með eða á móti hinum eða þessum framkvæmdum.
„Ég tel að það sé fyrir löngu komin tími til þess að við lyftum umræðunni upp úr þeim skotgröfum, öxlum ábyrgð okkar út frá sameiginlegum hagsmunum og komum okkur saman um ábyrga og skynsama stefnu til lengri tíma. Sá tónn er sleginn með þessum þingmálum og ég bind vonir mínar við að verði afgreidd á þessu löggjafarþingi. Sem áður segir er það einn mikilvægur liður í því að geta mætt þeim tækifærum sem við okkur blasa.“