Álagsprófanir vegna nýrrar varaaflsstöðvar í Bolungarvík


07.11.2014

Framkvæmd

Straumtruflanir verða hjá flestum íbúum Vestfjarða aðfararnótt 13. og 14. nóvember og aðfararnótt 12. nóvember hjá íbúum Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Ástæðan er álagsprófanir vegna lokafrágangs í umfangsmiklu uppbyggingarferli raforkumála á svæðinu sem til framtíðar á að draga verulega úr líkum á langavarandi straumleysi á Vestfjörðum.

Með tilkomu nýrrar 10 MW varaaflsstöðvar Landsnets í Bolungarvík og fleiri aðgerðum hyllir nú undir að þetta sameiginlega markmið Landsnets og Orkubús Vestfjarða verði að veruleika. Framkvæmdir við varaflsstöðina hófust árið 2013 og þessa dagana er verið að leggja lokahönd á verkið með prófunum á vélbúnaði og tæknibúnaði. Í næstu og þarnæstu viku, eða dagana 10. – 19. nóvember, fer síðasti verkáfanginn fram sem eru álagsprófanir á svæðiskerfið vestra. Fyrirséð er að þær munu valda truflunum hjá notendum víða á Vestfjörðum en reynt verður að lágmarka áhrifin eins og kostur er, m.a. með því að gera sem flestar þessara prófana að næturlagi.

„Landsnet hefur lengi leitað leiða til að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum svo íbúar svæðisins megi njóta svipaðra gæða í orkuafhendingu og aðrir landsmenn. Nýtt tengivirki á Ísafirði, endurnýjun og endurbætur á rafmagnslínum í svæðiskerfinu vestra, lagning jarðstrengs milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og bygging nýs tengivirkis og varaaflsstöðvar í Bolungarvík eru allt áfangar á þeirri leið. Mikilvægasti þátturinn en sá minnst sýnilegi er hins vegar uppsetning svokallaðra snjallnetsstýringa í svæðiskerfinu. Ef bilun verður á Vesturlínu, sem flytur rafmagn frá meginflutningskerfinu til svæðiskerfisins vestra, eiga snjallnetsstýringarnar að grípa strax inn í að ákveðnum forsendum uppfylltum og keyra upp varavélar í Bolungarvík þannig að tímalegnd straumleysis verði aðeins brot af því sem verið hefur,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.

Undanfarna dagar hefur verið unnið að uppfærslu og breytingum á varnarbúnaði í Mjólkárvirkjun og prufukeyrsla farið fram á dísilvélunum í varaflsstöðinni í Bolungarvík. Í næstu viku, eða aðfaranótt 12. nóvember mega íbúar í Bolungarvík og á Ísafirði eiga von á straumtruflunum og aftur aðfaranótt 13. og 14. nóvember og þá ná truflanirnar til allra notenda á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum sem fá raforku frá Mjólkárvirkjun. Ekki er útilokað að rafmagnstruflanir vegna kerfisprófana verði einnig vestra aðfaranótt 18. og 19. nóvember en það skýrist þó ekki fyrr en í lok næstu viku.


„Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar prófanir hafa í för með sér en í trausti þess að við náum tilætluðum árangri vona ég að íbúar á Vestfjörðum sýni okkur skilning og þolinmæði meðan á þessu stendur,“ segir Þórður Guðmundsson forstjóri.

Prófanir Landsnets og OV dagana 10. – 19. nóvember

Mánudagur 10. nóvember
Prófanir fara fram að degi til. Öll vélasamstæðan verður keyrð á fullu afli í fjóra tíma til að prófa vélar, öll hjálparkerfi og reynt að finna veikleika í kerfinu.
Notendur eiga ekki að verða varir við þessa prófun.

Þriðjudagur 11. nóvember
Prófanir fara fram aðfaranótt þriðjudags. Þær felast í því að „leysa út“ Breiðadalslínu og vera með dísilvélar í varaaflsstöðinni í fullri keyrslu til að kanna getu þeirra til að reka einar „eyjuna“ sem þá myndast í svæðiskerfinu.
Notendur eiga ekki að verða varir við þessa prófun.

Miðvikudagur 12. nóvember
Prófanir halda áfram aðfaranótt miðvikudags. Þá verður prófað að leysa aftur út Breiðadalslínu, þannig að vélar í varaaflsstöðinni þurfi að keyra upp og spennusetja norðurhluta Vestfjarða með aðstoð snjallnetsstýringa.
Þessar prófanir munu orsaka straumtruflanir hjá notendum í Bolungarvík og á Ísafirði en til að þær verði sem minnstar eru prófanirnar framkvæmdar að næturlagi.

Fimmtudagur 13. og föstudagur 14. nóvember
Aðfaranætur fimmtudags og föstudags fara umfangsmestu áfangar prófananna fram. Þá verður straumur tekinn af Mjólkárlínu 1 til að prófa nýjar stillingar stjórnbúnaðar í Mjólkárvirkjun, virkni snjallnetsstýringa og virkni nýju varaaflstöðvarinnar í Bolungarvík fyrir stýringu svæðiskerfisins á Vestfjörðum. Jafnframt verða könnuð áhrif mismunandi keyrslu véla í Mjólkárvirkjun á frammistöðu svæðiskerfisins.
Straumtruflanir verða hjá öllum notendum á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum sem fá raforku frá Mjólkárvirkjun í þessum hluta prófananna en reynt verður að lágmarka þær eins og kostur er umræddar nætur.

Þriðjudagur 18. og miðvikudagur 19. nóvember
Til öryggis er einnig gert ráð fyrir prófunum aðfaranótt þriðjudagsins 18. og miðvikudagsins 19. nóvember ef þörf skyldi verða á að endurtaka prófanir vegna nýrra stillinga stjórnbúnaðar í Mjólkárvirkjun, virkni snjallnetsstýringa og virkni nýju varaaflstöðvarinnar í Bolungarvík fyrir stýringu svæðiskerfisins á Vestfjörðum.
Ef af þessum prófunum verður verða straumtruflanir hjá öllum notendum á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum sem fá raforku frá Mjólkárvirkjun. Það er því vissara fyrir íbúa á svæðinu að vera viðbúnir straumtruflunum en sem fyrr segir verður reynt að halda þeim í lágmarki.

Nánari upplýsingar vegna prófananna verða birtar á heimasíðu Landsnets, landsnet.is og Orkubús Vestfjarða, ov.is ef þurfa þykir.

Auglýsing

Aftur í allar fréttir