Álagsprófanir vegna tengingar varaaflsstöðvarinnar í Bolungarvík við svæðiskerfið vestra hafa gengið vel það sem af er en í nótt geta íbúar í Bolungarvík og á Ísafirði átt von á straumleysi, eins og auglýst hefur verið.
Prófanirnar hófust á mánudag með því að allar dísilvélarnar sex í varafaflsstöðinni voru keyrðar á fullu afli í fjóra tíma, til að prófa ástand þeirra og kanna hvort einhverjir veikleikar fyndust í kerfinu. Síðastliðna nótt var svo prófað að láta dísilvélarnar í varaaflsstöðinni vera í fullri keyrslu og taka við rekstri „eyja“ í raforkukerfinu sem búnar voru til með því að leysa út Breiðadalslínu. Fyrst var prófað að láta vélarnar reka eyju með Bolungarvík eingöngu og því næst með Bolungarvík og Ísafirði saman.„Þetta gekk mjög vel og ekkert straumleysi varð í nótt, hvorki hjá notendum í Bolungarvík eða á Ísafirði, því vélarnar keyrðu kerfið alveg eins og við vorum að vonast til,“ segir Víðir Már Atlason, verkefnisstjóri hjá Landsneti. Hann segir að þetta sé vissulega ákveðin vísbending um að snjallnetslausnirnar, sem búið er að setja upp í svæðiskerfinu á Vestfjörðum, muni geta endurspennusett kerfið, eins og ráð sé fyrir gert að þær geri en fullsnemmt sé þó enn að slá því föstu. „Prófanirnar næstu nætur ættu hins vegar að skera úr um það,“segir Víðir.
Straumlaust næstu nætur
Það má því segja að alvaran byrji kl. eitt í nótt, aðfaranótt miðvikudags, þegar prófað verður að leysa út Breiðadalslínu. Þá þurfa vélarnar í varaaflsstöðinni bæði að keyra sig upp og spennusetja eyjuna á norðanverðum Vestfjörðum með aðstoð snjallnetsstýringanna.
Prófanirnar í nótt munu valda straumtruflunum eða straumleysi hjá notendum í Bolungarvík og á Ísafirði en vonast er til að óþægindi verði sem minnst þar sem prófanirnar eru gerðar að nóttu til. Aðfararnótt fimmtudags og föstudags eykst umfang prófananna enn frekar. Þá verður straumur tekinn af Vesturlínu með tilheyrandi straumleysi hjá íbúum á bæði norðanverðum Vestfjörðum og á suðurfjörðunum, eins og búið er að auglýsa.