Afhendingaröryggi, valkostir og umræðan um Suðurnesjalínu 2


07.11.2016

Framkvæmd

Um miðjan október birtum við hjá Landsneti skýrslu þar sem kostir sem hafa verið til umræðu við lagningu Suðurnesjalínu 2 eru tilgreindir og bornir saman.

Suðurnesjalína 2 er liður í styrkingu meginflutningskerfisins til að mæta vaxandi þörf fyrir raforkuflutning á Suðurnesjum og kröfum um bætt afhendingaröryggi. Undirbúningur vegna hennar hefur staðið yfir í mörg ár og ítarleg gögn hafa verið lögð fram. Framkvæmdir við línuna hafa tafist vegna ágreinings við eigendur jarða sem línan á að liggja um og dóma í Hæstarétti vegna eignarnámsheimildar og leyfis Orkustofnunar. 

Skúli Jóhannsson verkfræðingur skrifar um valkostaskýrsluna í Morgunblaðið fyrr í vikunni og viljum við þakka honum fyrir að vekja athygli á henni en bendum jafnframt á að  í  skýrslunni er m.a. farið ítarlega yfir þörfina fyrir bætta tengingu Suðurnesja við meginflutningskerfið. 

Mikilvægt er að til staðar séu að lágmarki tvær tengingar við Suðurnes til að afhendingaröryggi á rafmagni á svæðinu sé ásættanlegt.  Ein raflína til Suðurnesja þýðir að raforkuvinnsla og raforkunotkun eru háð þessari einu línu og truflanir valda skerðingu og straumleysi bæði hjá íbúum og atvinnulífi á svæðinu auk þess sem virkjanir á svæðinu nýtast lítið eða ekki til orkuvinnslu. Það sama gildir þegar taka þarf línuna út vegna viðhalds.  Rekstur jarðvarmavirkjana hefur einnig reynst illmögulegur þegar flutningur um Suðurnesjalínu 1 hefur rofnað og Suðurnesin þar með aðskilin meginflutningskerfinu. 

Raforkuflutningur til og frá Suðurnesjum ræðst af hversu mikil raforka er framleidd og notuð á svæðinu á sérhverjum tíma. Við uppbyggingu flutningskerfisins þarf að horfa til framtíðar og taka tillit til beggja þessarra þátta, óháð hvorum öðrum. Til lengri tíma getur álag aukist á Suðurnesjum, án þess að orkuvinnsla þar aukist samhliða. Það kallar á aukinn innflutning inn á svæðið. Eins getur orkuvinnslan aukist, án þess að notkunin fylgi eftir og þá þarf að flytja orku út af svæðinu þar sem orkuframleiðendum er frjálst að selja orku hvert  á land sem er og kaupendum að kaupa hvaðan sem er.  

Í skýrslunni eru settar fram þrjár sviðsmyndir álagsþróunar á Suðurnesjum og þrjár sviðsmyndir þróunar orkuvinnslu – sviðsmyndir sem allar leggja áherslu á að Landsnet geti staðið við loforð sitt um rafvædda framtíð í takt við samfélagið. 
Valkostaskýrslan er aðgengileg á vef Landsnets, www.landsnet.is. Þar er einnig að finna myndband sem sýnir þá þrjá meginkosti sem eru í umræðunni, einn kost sem gerir ráð fyrir loftlínu og tvo sem gera ráð fyrir jarðstreng. 

Við hjá Landsneti hvetjum alla til að lesa skýrsluna  og ef einhverjar spurningar, athugasemdir eða hugleiðingar vakna þá hvetjum við ykkur til hafa samband – við erum alltaf til í að taka samtalið. 

Sverrir Jan Norðfjörð
Framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets

 

Aftur í allar fréttir