Kerfisstjórn Landsnets kaupir rafmagn á raforkumarkaði til að mæta flutningstapi en flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Um 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda. Það samsvarar um 400 GWst/ári sem jafngildir framleiðslu Kröflustöðvar.
Nýverið voru opnuð tilboð í flutningstöp raforku fyrir næstu 12 mánuði ásamt viðbótartöpum fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2024. Alls voru um 310 GWst af raforku boðin út en það er sú raforka sem Landsnets áætlar að tapist í flutningskerfinu á næsta ári.
Það var Elma Orkuviðskipti sem hélt utan um uppboðið fyrir Landsnet. Uppboðið var keyrt á rafrænu uppboðskerfi sem CROPEX, króatíska raforkukauphöllin hefur hannað og notað við góðan orðstír til 10 ára en Elma er með samstarfssamning við CROPEX um notkun á kerfinu.
„ Það er ánægjulegt að segja frá því að þetta fyrsta uppboð okkar hjá Elmu tókst einstaklega vel og að það hafi verið umframframboð af raforku fyrir alla 12 mánuðina sem og fyrir viðbótartöpin. „ segir Katrín Olga Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Elma.
Heildarmagn framsettra tilboða var 838,6 GWst og heildarmagn samþykktra tilboða var 310 GWst. Meðalverð samþykktra boða var 9.418 kr.
Grunntöp
Kostnaður grunntapa næstu 12 mánuði verður 2.566.226.088 kr. fyrir 290.448 MWst sem gerir 8.835 kr./MWst . Kostnaður grunntapa síðustu 12 mánuði var 2.003.838.993kr. fyrir 303.000 MWst sem gerir 6.613 kr./MWst. Hækkun meðalverðs grunntapa er því 33,6%
Viðbótartöp
Kostnaður viðbótartapa á næsta ársfjórðungi verður 357.432.240 kr. fyrir 35.640 MWst sem gerir 10.029 kr./MWst. Kostnaður viðbótartapa á sama tíma í fyrra var 156.471.616 kr. fyrir 20.000 MWst sem gerir 7.824 kr./MWst. Hækkun milli ára er þannig 28,2%.
“Niðurstöður útboðsins sýna að verðlagning orkunnar er farin að taka mið af væntum orkuskorti eins og skýrsla Landsnets um afl- og orkujöfnuð sýnir. Það er búið að vera stöðugt hækkunarferli í gangi frá árinu 2021 en á því tímabili hefur meðalverð orkunnar tvöfaldast. Landsnet innheimtir kostnað vegna flutningstapa í gegnum gjaldskrá. Búið er að senda gjaldskrártillögu til Orkustofnunar sem gerir ráð fyrir 3,3% hækkun á gjaldskrá miðað við síðasta ársfjórðung. Hækkunin miðað við sama tímabil í fyrra er hins vegar 51,9% „ segir Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri kerfisstjórnunar hjá Landsneti.
Sex markaðsaðilar tóku þátt í uppboðinu; HS orka, N1, Orka heimilanna, ON, Rafhlaða og Straumlind og eru allir þessir aðilar með aðildarsamning við Elmu. Landsvirkjun tók ekki þátt.