Framkvæmd

Guðný Björg Hauksdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra mannauðs og umbóta sem er nýtt svið hjá Landsneti og Svandís Hlín Karlsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti sem líka er nýtt svið. Með ráðningum þeirra er hlut­fall kvenna og karla jafnt í fram­kvæmda­stjórn Landsnets en við hjá Landsneti störfum eftir jafnréttisáætlun og erum með jafn­launa­vottun.

Guðný Björg Hauksdóttir ráðin framkvæmdastjóri mannauðs og umbóta

Guðný Björg Hauksdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra mannauðs og umbóta. Guðný Björg hefur 18 ára reynslu úr áliðnaðinum en hún starfaði hjá Fjarðaáli frá upphafi rekstrar til ársins 2021. Hún var hluti af framkvæmdastjórnarteymi Fjarðaáls frá árinu 2009, fyrst sem framkvæmdastjóri heilsu- og öryggismála en frá 2011 sem framkvæmdastjóri mannauðsmála. Árið 2021 flutti hún sig um set er hún tók við starfi framkvæmdastjóra mannauðssviðs hjá Norðuráli.

„Ég hlakka ótrúlega mikið til að leiða nýtt stoðsvið mannauðs og umbóta hjá Landsneti og fá tækifæri til að nýta þá reynslu og þekkingu sem ég hef öðlast í álbransanum undanfarin 18 ár á nýjum vettvangi. Mér finnst heillandi að fyrirtækið tvinni saman mannauði og umbótum sem að mínu mati eru nátengdir þættir sem tengjast fyrirtækjamenningu og skýrri framtíðarsýn. Ég geng til liðs við Landsnet full tilhlökkunar enda mikið fram undan á sviði raforkumála þar sem hlutverk fyrirtækisins felst í því að vera leiðandi afl í einum metnaðarfyllstu framtíðaráformum þjóðarinnar“ segir Guðný Björg.

Mannauður og umbætur er nýtt svið hjá Landsneti þar sem áhersla er lögð á mannauðs-, öryggis-  og gæðamál ásamt innri þjónustu.

Svandís Hlín ráðin framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar

Svandís Hlín Karlsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra viðskipta- og kerfisþróunar þar sem hún mun fara fyrir öflugum hópi sem ber ábyrgð á þróun raforkumarkaðar, viðskiptatengslum og uppbyggingaráætlun Landsnets. 

„Það er ótrúlega spennandi að fá tækifæri til að leiða nýtt svið hjá Landsneti og takast á við þær áskoranir sem eru fram undan í orkumálum. Umhverfið er að breytast með nýjum orkugjöfum, nýrri tækni og breyttu landslagi notenda. Ég er stolt að fá að nýta krafta mína í að veita viðskiptavinum okkar góða þjónustu, stuðla að virkni markaðar, nýsköpun og auknu gagnsæi. Einnig að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum með þróun á flutningskerfinu með loftslagsmálin að leiðarljósi. Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni og taka þátt í að gera Landsnet að einu af skilvirkustu flutningsfyrirtækjum í Evrópu með öllu því frábæra fólki sem hér vinnur“ segir Svandís Hlín.

Svandís hefur unnið hjá Landsneti frá árinu 2015 og nú síðast sem forstöðumaður viðskiptaþjónustu og -þróunar ásamt því að vera faglegur leiðtogi fyrir innleiðingu á stefnu Landsnets.  Áður starfaði hún sem fjármálasérfræðingur hjá Danone AB í Svíþjóð þar sem verksviðið var m.a. ábyrgð á fjárhagsáætlun, viðskiptaþróun og áhættugreiningu. Einnig hefur hún starfað sem fagstjóri efniskaupa hjá Mannviti verkfræðistofu.

Viðskipta – og kerfisþróun er nýtt svið hjá Landsneti þar sem áhersla er á þróun umhverfis raforkumarkaða, viðskiptatengsl, viðskipta- og uppbyggingaráætlun flutningskerfisins ásamt rannsóknum og þróun.

Aftur í allar fréttir