Framkvæmd

Veturinn 2021-2022 var slæmt ár í orkubúskap þjóðarinnar. Skerða þurfti raforku til fjölmargra notenda með þeim afleiðingum að brenna þurfti olíu með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda ásamt því að iðnaðarframleiðsla dróst saman og útflutningsverðmæti töpuðust. Ástæða þessara skerðinga var öðru fremur lítil úrkoma  á Suður- og Suðvesturlandi sem orsakaði lítið innrennsli í uppistöðulón á Suðurhluta landsins. Árlegur orkuforði þjóðarinnar mótast að miklu leyti að því hve miklu vatni er hægt að safna í lón vatnsaflsvirkjana og nýta í hverflum þeirra til þess að búa til rafmagn. Á sama tíma var mikil úrkoma á Norður- og Austurlandi sem olli því að mikið innrennsli var í lónin á því svæði. Þau fylltust snemma og vatn rann lengi um yfirföll, laxveiðimönnum til mikils ama ásamt því sem mikil orka tapaðist í sjóinn. Ef ekki væru til staðar flutningstakmarkanir í raforkukerfinu væri mögulegt að jafna innrennsli í lón eftir landshlutum í mun meira mæli en hægt er í dag og lágmarka þannig orkutap vegna rennslis um yfirfall lóna og nýta betur þær virkjanir sem eru til staðar. Skerðingarnar í kjölfarið komu á óheppilegum tíma því loðnuveiði var með mesta móti þennan vetur og hátt verð var á afurðum iðjuvera í kjölfar stríðsreksturs Rússa í Úkraínu.

Landsnet hefur látið framkvæma greiningu á umfangi skerðinga og að hve miklu leyti hefði verið hægt að koma í veg fyrir þær ef til staðar hefði verið meiri flutningsgeta á byggðalínuhringnum. Niðurstaða greiningarinnar sem unnin var af verkfræðistofunni Eflu sýnir  að óuppfyllt orkuþörf fiskimjölsverksmiðja, rafkynntra hitaveitna og stóriðjuvera á SV-hluta landsins nam samtals 300 GWh. Skerðingar til stóriðju á Austur- og Norðurlandi voru ekki teknar með í greiningunni, þar sem að þau eru staðsett innan þeirra flöskuhálsa í flutningskerfinu sem takmarka flutning raforku á milli landshluta og höfðu þeir því ekki áhrif á þeirra rekstur. Fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi eru hins vegar utan þessara flöskuháls og njóta því ekki nálægðarinnar við Fljótsdalsstöð í erfiðum vatnsárum.

Ein athyglisverðasta niðurstaða greiningarinnar er sú að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessar skerðingar að öllu leyti ef búið væri að uppfæra byggðalínuna eins og gert er ráð fyrir í áætlunum um uppbyggingu flutningskerfisins. Ekki var hægt að keyra virkjanir á Norður- og Austurlandi á fullu álagi á þessum tíma og tapaðist því mikil orka sem hefði verið hægt að nýta hefði verið hægt að flytja hana á milli landshluta.

Lagt var mat á þann þjóðhagslega kostnað sem af skerðingunum hlaust. Olíukaup fjarvarmaveitna og fiskiðjuvera námu samtals 1,126 milljörðum króna og skuggavirði losunar vegna brennslu olíunnar reiknast til að vera 120 milljónir. Kostnaður vegna tapaðrar álframleiðslu álvera á SV-landi nam 2,8 milljörðum króna en álverð var mjög hátt á þessum tíma eins og áður sagði. Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga þurfti einnig að skerða sína framleiðslu og reiknast verðmæti tapaðrar framleiðslu þess 1,25 milljarðar króna. Samtals nam því beinn kostnaður sem samfélagið varð fyrir 5,3 milljörðum króna á þessu eina ári, auk þess sem losun koltvísýrings vegna olíubrennslu var umtalsverð.

Til að setja þetta í samhengi var kostnaður við byggingu nýrra flutningslína á milli Fljótsdals og Kröflu 7,7 makr. og á milli Kröflu og Akureyrar 9,2 makr. Til að klára samtengingu landshlutanna þarf að byggja þrjár línur í viðbót frá Akureyri til Hvalfjarðar af svipuðu umfangi, línur sem eiga eftir að auka skilvirkni og nýtingu orkukerfisins næstu 50 til 70 árin til hagsbóta fyrir þjóðina alla. 

Skýrslu Eflu um Þjóðhagslegan kostnað vegna takmarkana í flutningskerfi raforku má finna hér.

Aftur í allar fréttir