Íslendingar geta verið þakklátir fyrir það að búa við frið og öryggi – þar á meðal orkuöryggi - nú þegar víðsjárverðir tímar og stríðsátök eru í Evrópu, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsmálaráðherra á vorfundi Landsnets sem fram fór í gær. Þar setti hann markmið Íslands í loftslagsmálum í samhengi við umræðu um orkuöryggi á heimsvísu.
Íslendingar geta verið þakklátir fyrir það að búa við frið og öryggi – þar á meðal orkuöryggi - nú þegar víðsjárverðir tímar og stríðsátök eru í Evrópu, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsmálaráðherra á vorfundi Landsnets sem fram fór í gær. Þar setti hann markmið Íslands í loftslagsmálum í samhengi við umræðu um orkuöryggi á heimsvísu.
„En nú háttar til að mörg ríki Evrópu, jafnvel okkar nánustu nágrannalönd, eru háð orkuinnflutningi frá óvinveittu ríki, með mismiklum hætti þó. Þessi nágrannaríki okkar vinna að því hörðum höndum að komast út úr þeim aðstæðum með því að finna leiðir til að hætta viðskiptum og innflutningi jarðgass og olíu frá Rússlandi. Allt kapp er lagt á að flýta orkuskiptum enn frekar með i nnlendri orkuvinnslu. Það er á svona tímum sem við sjáum verðmæti auðlinda okkar með enn gleggri hætti.“
Hann sagði að íslensk endurnýjanleg orka vinni að báðum mikilvægum markmiðum samtímis, loftslagsmarkmiðum og auknu orkuöryggi. „En þó staðan sé þessi þá gæti hún verið enn betri með því að öðlast fullt orkusjálfstæði með okkar eigin framleiðslu raforku eða rafeldsneytis,“ sagði Guðlaugur.
Dugar ekki til að mæta framtíðinni
Á Vorfundi Landsnets var mikilvægi flutningskerfisins í orkuskiptum til umfjöllunar og var m.a. rætt um afleiðingar veiks flutningskerfis og hvernig megi styrkja kerfið til framtíðar, m.a. til að standa undir orkuskiptum í samgöngum.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, fjallaði í sínu erindi um áætlanir Landsnets um uppbyggingu flutningskerfisins og setti þær í samhengi við sviðsmyndir sem byggt var á í svokallaðri grænbók um stöðu og áskoranir í orkumálum sem kom út fyrr á árinu. Sagði Guðmundur að ef unnið væri eftir kerfisáætlun Landsnets eins og hún er núna þá myndu metnaðarfyllri sviðsmyndirnar ekki nást. „Þetta fjárfestingarátak sem við höfum þó verið að fara í mun ekki duga til að mæta framtíðinni,“ sagði Guðmundur.
Til að hægt væri t.d. að ná kolefnishlutleysi hér á landi þyrfti að verja meira fé í uppbyggingu flutningskerfi raforku. Núvirtur fjárfestingarkostnaður samkvæmt kerfisáætlun væri um 160 milljarðar króna til ársins 2040, en til að ná markmiðum þeirra sviðsmynda sem lengst gengju yrði kostnaðurinn um 300 milljarðar á sama tímabili.