Mannauðs- og mannréttindastefna
Framtíðarsýn
Markmið fyrirtækisins er að vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem mannauður er í fyrirrúmi, starfsfólk upplifir öryggi, vellíðan og stöðuga persónulega þróun í starfi. Við viljum skapa menningu sem hvetur til samvinnu, nýsköpunar og árangurs. Með markvissri mannauðsstjórnun tryggjum við að hæft og fjölbreytt starfsfólk vinni saman í sjálfbæru og öruggu vinnuumhverfi. Við leggjum áherslu á stöðugar umbætur, gagnadrifna stefnumótun og samfélagslega ábyrgð þar sem virðing, jafnræði og sanngirni eru höfð að leiðarljósi. Mannauðsstefna Landsnets lýsir áherslum fyrirtækisins í mannauðs- og mannréttindamálum. Hún er órjúfanlegur hluti af heildarstefnu fyrirtækisins og nær til alls starfsfólks. Gildi Landsnets – samvinna, virðing og ábyrgð – liggja til grundvallar mannauðsstefnunni og þeirri uppbyggilegu menningu sem ríkir á vinnustaðnum. Með þessari stefnu stuðlum við að jöfnuði, að vinnustaðurinn sé eftirsóknarverður, jafnvægi ríkir milli vinnu og einkalífs og mannauðurinn framúrskarandi. Stefnan er endurskoðuð árlega.
Áhersla er á
Hagkvæma og sjálfbæra mannauðsstjórnun
Með stefnumótandi mannauðsstjórnun tryggjum við að mannauður fyrirtækisins sé nýttur á sem skilvirkastan hátt, með áherslu á stöðuga persónulega þróun í starfi og langtímasýn í ráðningum.r
Valdeflingu starfsfólks
Við styðjum starfsfólk í að taka upplýstar ákvarðanir, leysa vandamál og þróast í starfi með sjálfstæðum vinnubrögðum.
Fjölbreytileika og inngildingu
Með skýrum fjölbreytivísum tryggjum við að ólík sjónarmið og bakgrunnur starfsfólks fái notið sín og stuðlum að jöfnum tækifærum.
Vinnustaðamenningu byggða á trausti og samvinnu
Við eflum starfsfólk í að eiga opin og uppbyggileg samskipti með markvissum aðgerðum eins og fræðslu og þjálfun, endurgjöf og hrós, formlegum púlssamtölum og leiðbeinendakerfi.
Andlega og líkamlega vellíðan
Við leggjum áherslu á að tryggja jafnvægi milli vinnu og einkalífs, stuðla að geðheilbrigði og draga úr streitu með öflugri heilsueflingu og forvörnum.
Nýsköpun í mannauðsmálum
Með gagnadrifinni nálgun nýtum við mælingar og greiningar til að bæta vinnustaðamenningu og auka árangur.
Virði mannauðsmála og mannréttinda
Landsnet lítur á mannauð sem dýrmætustu auðlind fyrirtækisins og leggur ríka áherslu á að skapa vinnustað þar sem mannréttindi og jafnrétti eru í forgrunni.
Það gerum við með því að:
Meta og þróa hæfni starfsfólks
Með markvissri fræðslu og starfsþróun tryggjum við að starfsfólk hafi hæfni til að takast á við krefjandi verkefni framtíðarinnar.
Stuðla að jafnrétti og sanngirni
Við tryggjum að laun og starfskjör séu byggð á skýrum viðmiðum án kynbundins launamunar og í takt við markaðinn.
Efla samfélagslega ábyrgð í mannauðsmálum
Við tökum virkan þátt í jafnréttis- og fjölbreytileikavinnu og höldum utan um mælikvarða sem styðja við markmið um fjölbreytni og inngildingu.
Bæta vinnustaðamenningu og samskipti
Við mælum reglulega ánægju og helgun starfsfólks og notum niðurstöður til umbóta.
Viðhalda skýrum viðbragðsáætlunum gegn mismunun, einelti og áreitni
Með EKKO-stefnu okkar tryggjum við að allir njóti virðingar og öryggis á vinnustað.
Mannauðsstefnan er lifandi skjal sem þróast í takt við nýjustu strauma í mannauðsmálum og þarfir starfsfólks. Með skýrri stefnu og markvissum aðgerðum stuðlum við að vellíðan, árangri og sjálfbærni í mannauðsmálum Landsnets.
Jafnlaunastefna
Jafnlaunastefnan okkar nær til alls starfsfólks Landsnets og er órjúfanlegur hluti af Mannauðs- og Starfskjarastefnu Landsnets ásamt Jafnréttisstefnu fyrirtækisins.
- Við tryggjum starfsfólki jöfn kjör og tækifæri. Við greiðum starfsfólki okkar samkeppnishæf laun, sambærilegt og í öðrum atvinnugreinum á markaði en erum þó ekki leiðandi. Ákvörðun launa er byggð á viðurkenndum jafnréttissjónarmiðum, virðingu fyrir starfsfólki, lögum og reglum sem fylgja jafnréttislögum nr. 150/2020, með síðari breytingum og öllum öðrum reglum og lögum um að fólki sé ekki mismunað. Sanngirni og samfélagsleg ábyrgð eru leiðarljós okkar í kjaramálum.
- Við leggjum áherslu á þátttöku í kjararannsóknum þar sem markmiðið er ávallt að launaþróun starfsfólks sé byggð á vitneskju um þróun markaðarins.
- Við gerum ófrávíkjanlega kröfu um jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæta vinnu óháð kyni eða öðrum þáttum. Vottað jafnlaunakerfi er til staðar á grundvelli íslenska staðalsins ÍST 85.
- Við framkvæmum árlega launagreiningu og kynnum niðurstöðurnar fyrir starfsfólki.
- Við bregðumst við með úrbótum og eftirliti ef kröfur staðalsins/staðfestingarinnar eru ekki uppfylltar.
- Við tryggjum eftirfylgni og stöðugar umbætur og skuldbindum við okkur til að viðhalda vottun að undangenginni úttekt á jafnlaunakerfinu og gera úrbætur þegar þess er þörf.
Stefna gegn einelti, áreitni og ofbeldi (EKKO)
EKKO stefna er hluti af mannauðsstefnu Landsnets og nær sem slík til alls starfsfólks og annarra aðila sem kunna að starfa fyrir Landsnet, s.s. verktaka, ráðgjafa og nema.
Skilgreiningar:
Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Háttsemin á sér stað í tiltekin tíma og hefur margs konar birtingarform. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Kynbundið áreiti/ofbeldi er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Öll hegðun sem fellur undir ofangreindar skilgreiningar er óviðunandi og óheimilt í hvaða mynd sem hún birtist og verður undir engum kringumstæðum umborin.
Útgefið í mars 2025
FLÝTILEIÐIR
FLÝTILEIÐIR