Ekki er hægt að geyma raforku, sem framleidd er inn á íslenska raforkukerfið heldur verður að nota hana um leið og hún er framleidd.
Raforkuframleiðsla þarf því að vera jöfn raforkunotkun hverju sinni. Til að tryggja að svo sé gera raforkuframleiðendur og raforkusalar ítarlega áætlun um viðskipti sín þar sem fram kemur að raforkan, sem fyrirtækið hyggst framleiða eða kaupa fyrir næsta dag, sé jöfn þeirri sem það hyggst selja til viðskiptavina eða annarra orkufyrirtækja.
Jöfnunarábyrgð
Í þessu sambandi er talað um að framleiðslu- og sölufyrirtæki séu jöfnunarábyrg og því eru þau nefnd jöfnunarábyrgðaraðilar. Þó slíkur aðili skili inn til Landsnets áætlun sem er í jafnvægi fyrir næsta dag verða oft frávik frá henni þegar til kastanna kemur, enda ógjörningur að spá nákvæmlega fyrir um raforkunotkun hverju sinni því frávik geta átt sér stað í framleiðslunni, s.s. þegar vélar í virkjunum bila fyrirvaralaust og framleiðsla dregst saman.
Markaður fyrir jöfnunarorku
Eitt meginhlutverk okkar er kerfisstjórnun á raforkukerfinu en í því felst m.a. að stilla saman raforkuframleiðslu og raforkuþörf á hverjum tíma.
Við þurfum að geta mætt frávikum með því að bregðast hratt við og óska eftir að framleiðendur auki eða dragi úr framleiðslu svo hægt sé að laga hana að notkuninni á hverju augabliki. Það gerum við með því að reka jöfnunarorkumarkað og hafa til reiðu jöfnunarorku fyrir viðskiptavini til að jafna þann mismun sem orðið getur á framleiðslu og notkun þegar í rauntímarekstur er komið.
Landsnet sér um að afla jöfnunarorkunnar og annast uppgjör við jöfnunarábyrgðaraðila. Jöfnunarorkunnar er aflað á reglunaraflsmarkaði og hún er verðlögð á markaðsverði fyrir hverja klukkustund.
Viðskiptaáætlun
Raforkuframleiðendur og raforkusalar gera ítarlega áætlun um viðskipti sín þar sem fram kemur að sú raforka, sem fyrirtækið hyggst framleiða eða kaupa fyrir næsta dag, sé jöfn þeirri sem það hyggst selja til viðskiptavina eða annarra orkufyrirtækja.
Í þessu sambandi er talað um að framleiðslu- og sölufyrirtæki séu jöfnunarábyrg og sem slík eru þau nefnd jöfnunarábyrgðaraðilar. Þó jöfnunarábyrgðaraðili skili inn til Landsnets áætlun sem er í jafnvægi fyrir næsta dag verða oft frávik frá henni þegar til kastanna kemur því ógjörningur er að spá nákvæmlega fyrir um raforkunotkun hverju sinni og frávik geta átt sér stað í framleiðslunni, s.s. þegar vélar í virkjunum bila fyrirvaralaust og framleiðsla dregst saman.