Viðskiptavinurinn, samtalið og gjaldskráin
Viðskiptaumhverfið
„Í okkar umsjón eru mikil verðmæti. Samfélagið og viðskiptavinir gera miklar kröfur til okkar varðandi góða þjónustu, skilvirkan rekstur og stöðuga gjaldskrá. Við sjáum alltaf tækifæri í að gera betur og gerum okkur grein fyrir því að það er lykilatriði til að ná fram skilvirkni í ferlum og hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri raforkukerfisins. Við viljum einfalda og skerpa hluti í þágu viðskiptavina og nýta fjármagn þeirra og okkar betur. Hluti af því er að velja umhverfisvænar lausnir því þannig nýtum við betur auðlindir okkar og heimsins.“
Á árinu bættist við einn stórnotandi þegar nýtt gagnaver, Reykjavík DC, hóf rekstur við Korputorg. Fjöldi viðskiptavina Landsnets hélst þó áfram sá sami milli ára þar sem dreifiveitum fækkaði um eina þegar Rafveita Reyðarfjarðar sameinaðist RARIK. Viðskiptavinir okkar voru því áfram samtals 22 eftir árið 2020. Fjöldi stórnotenda er því í dag orðinn 10 og þar af er fjöldi gagnavera kominn upp í fimm talsins.
Þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður vegna kórónuveirunnar og niðursveiflu í efnahagslífinu sem henni fylgdi var áhugi og áform fyrirtækja að tengjast flutningskerfinu sambærilegur og síðasta ár. Af fyrirspurnum að dæma má segja að það sé vaxandi áhugi hjá innlendum og erlendum fyrirtækjum með starfsemi sem tengist aðgerðum í loftlagsmálum að starfa á Íslandi, með þeirri umhverfisvænu raforku sem landið hefur upp á að bjóða. Stærð fyrirspurna hefur verið allt frá 10 MW upp í 300 MW og tengjast staðsetningum víðs vegar um landið. Einnig hafa framfarir í orkuframleiðslu verið að skila sér í fjölbreyttari fyrirspurnum á því sviði.
Dreifiveitur | Framleiðeindur | Stórnotendur |
---|---|---|
RARIK | Landsvirkjun | ADC |
HS Veitur | ON | Verne Holding |
Norðurorka | HS Orka | TDK Foil Iceland |
Veitur | Orkusalan | ISAL |
Orkubú Vestfjarða | Fallorka | Alcoa |
Rafveita Reyðarfjarðar | Íslensk orkumiðlun | Elkem |
Rafveita Reyðarfjarðar | Orka Heimilanna | Norðurál |
PCC | ||
Etix | ||
RDC |
Þróun
Við vinnum að því að þróa viðskiptaumhverfið okkar með breytingu á netmála okkar, gjaldskrá og þróun á heildsölumarkaði raforku. Samráð er haft við viðskiptavini okkar í öllum verkefnum og væntanlega viðskiptavini eftir þörfum. Samráðið fer fram í gegnum viðskiptaráð Landsnets og sérstaka vinnuhópa.
Haldnir voru samtals sjö fundir á árinu 2020 tengt þróunarverkefnum á viðskiptaumhverfinu okkar. Þrír fundir voru haldnir í viðskiptaráði Landsnets þar sem farið var yfir forgangsverkefni ársins sem og kynningar á breytingum á einstaka skilmálum. Einn fundur var í byrjun árs með vinnuhóp varðandi þróun á flutningsgjaldskrá og um haustið var aðeins breytt um snið og send áfangaskýrsla í stað fundar og óskað eftir umsögnum. Með faghóp varðandi þróun á heildsölumarkaði raforku voru haldnir þrír fundir í byrjun árs þar sem farið var yfir tækifæri og áskoranir á high-level hönnun á heildsölumarkaði raforku.
Sölumælingar og uppgjör
Nýr skilmáli um sölumælingar og uppgjör tók gildi 1. júlí 2020 eftir umsagnarferli hjá viðskiptavinum okkar og samþykki Orkustofnunar. Skilmálinn rammar inn núverandi vinnulag og stuðlar þannig að auknu gagnsæi og jafnræði.
Skilyrði vinnslueininga til að tengjast flutningskerfinu
Vegna fjölda fyrirspurna um tengingar vindlunda við flutningskerfið og þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir varðandi takmarkanir í flutningskerfinu höfum við verið að undirbúa nýjan skilmála. Skilmálinn skilgreinir þær forsendur sem þurfa að vera til staðar til að gerður verði tengisamningur við framleiðanda raforku. Einnig skilgreinir skilmálinn hvaða viðmið beri að leggja til grundvallar undantekningarákvæðum í raforkulögum sem fela í sér heimild til þess að synja nýjum aðilum um aðgang að flutningskerfi Landsnets. Drögin voru kynnt viðskiptavinum okkar og væntanlegum orkuframleiðendum sumarið 2020 og fóru í framhaldi í umsagnarferli. Við höfum svarað öllum athugasemdum og uppfært skilmálann eftir þörfum. Skilmálinn var sendur til samþykktar til Orkustofnunar í desember 2020. Beðið er samþykktar Orkustofnunar og mun skilmálinn taka gildi í beinu framhaldi.
Tæknilegar kröfur um aflstuðul vindlunda
Eðli orkulunda (vindlunda) er annað en virkjana sem við þekkjum á Íslandi í dag og hafa flutningsfyrirtæki víða sett kröfur á tæknilega eiginleika þeirra. Þörf er á að skilgreina tæknilegar kröfur um aflstuðul orkulunda á Íslandi og var það gert með uppfærslu á skilmála um tæknilegar kröfur til vinnslueininga á árinu 2020. Markmiðið með uppfærslunni er að setja kröfur til orkulunda um aflstuðul til samræmis við kröfur annarra flutningsfyrirtækja og reglugerðar ESB. Skilmálinn var sendur í umsagnarferli til viðskiptavina okkar í október 2020 og sendur til samþykktar til Orkustofnunar í desember. Beðið er samþykktar Orkustofnunar og mun skilmálinn taka gildi í beinu framhaldi.
Aukin neytendavernd og samkeppni á raforkumarkaði
Auknar áherslur hafa verið á neytendavernd á raforkumarkaði og efla þær samkeppni á raforkumarkaði með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Í desember var gefin út ný reglugerð, nr. 1150/2019, um raforkuviðskipti og mælingar, en hún er endurspegluð í skilmála okkar um samskipti aðila á raforkumarkaði með gögn. Því var skilmálinn endurskoðaður, drög að nýrri útgáfu send í umsagnarferli til viðskiptavina í október og skilmálinn sendur til samþykktar til Orkustofnunar í desember. Beðið er samþykktar Orkustofnunar og mun skilmálinn taka gildi í beinu framhaldi.
Gjaldskrá
Vinna við endurskoðun á gjaldskrárstrúktúr Landsnets hófst á árinu 2017. Fyrsta áfanga lauk 2018 þar sem áskoranir á núverandi uppbyggingu voru metnar í samráði við hagaðila raforkumarkaðarins ásamt því að bera kennsl á væntanlega þróun. Annar áfangi hefur snúið að því að þróa breytingar og forgangsröðun verkefna. Í nóvember 2020 kynntum við áform um breytingu á innmötunargjaldi til framleiðenda þar sem unnið verður áfram að nánari útfærslu. Áætlað er að senda breytingu á gjaldskrá ásamt innleiðingaráætlun til Orkustofnunar á fyrri hluta árs 2021.
Breytingar á flutningsgjaldskrá
Á árinu voru gerðar breytingar á flutningsgjaldskrá Landsnets til dreifiveitna og stórnotenda. Gjaldskrá til stórnotenda var leiðrétt 1. ágúst eftir tímabundna lækkun um 9,5% 1. júlí 2019. Okkur var gert að endurgreiða gengishagnað, sem myndaðist á árunum 2008–2010, í lok árs 2020. Gjaldskrá til dreifiveitna hækkaði þann 1. ágúst um 2,5% þar sem tekið var tillit til tekjumarka og tekur breytingin mið af lífskjarasamningnum.
Breytingar á gjaldskrá vegna flutningstapa
Flutningstöp vegna raforkuflutnings eru boðin út fjórum sinnum á ári. Gjaldskrá vegna flutningstapa endurspeglar kostnað hvers ársfjórðungs og breytist hún í takt við hvert útboð. Útboðin voru fjögur árið 2020 og gjaldskrárbreytingarnar einnig. Gjaldskrá vegna flutningstapa er eins fyrir dreifiveitur og stórnotendur og er hún birt í íslenskum krónum.
Breytingar á gjaldskrá vegna kerfisþjónustu
Gjaldskrá vegna kerfisþjónustu hækkaði um 15% þann 1. júlí 2020 og var það til þess að mæta kaupum okkar á reglunaraflstryggingu. Kerfisþjónusta er sú þjónusta sem við veitum til að viðhalda rekstraröryggi og jafnvægi í framboði og eftirspurn raforku á hverjum tíma. Undir kerfisþjónustu fellur reglunaraflstrygging sem tryggir lágmarksframboð á reglunaraflsmarkaði, útvegun reiðuafls ásamt varaafli sem er tengt kerfinu og tiltækt án fyrirvara.
Raforkumarkaðurinn
Eitt af markmiðum okkar er að koma á laggirnar raforkumarkaði til að ná fram sjálfbæru og öruggu raforkuframboði með langtímahagsmuni neytenda í huga. Unnið hefur verið með hagsmunaaðilum frá haustinu 2018 til að meta áskoranir og væntingar á þróun virkari heildsölumarkaðar raforku á Íslandi. Á árinu 2019 gengu til liðs við okkur ráðgjafar frá ráðgjafafyrirtækinu Market Reform til að vinna að high-level hönnun á heildsölumarkaði raforku á Íslandi ásamt áætlun að innleiðingu. Farið var ítarlega yfir möguleikana og áskoranir viðskiptavina okkar í sérstökum vinnuhóp á árinu 2020.
Upprunaábyrgðir raforku
Nokkur stöðugleiki virðist vera kominn í útgáfu upprunaábyrgða. Seinustu fjögur ár hafa verið gefin út skírteini fyrir nær alla framleiðslu vottaðra virkjana. Er samanlagt uppsett afl þeirra virkjana rúm 2.843 MW. Afskráning upprunaábyrgða vegna notkunar innanlands hefur vaxið stöðugt frá 2016 og er nú svo komið að öll orka seld í heildsölu er vottuð.
Áhættustjórnun
Hlutverk fjárstýringar er að tryggja að fyrirtækið hafi ávallt aðgengi að nægjanlegu lausu fé til að standa við skuldbindingar sínar. Eins er hlutverk fjárstýringar að lágmarka fjármagnskostnað og hámarka fjármagnstekjur félagsins að teknu tilliti til áhættuvilja þess.
Helstu fjármögnunarhreyfingar ársins áttu sér stað á fyrsta ársfjórðungi. Annars vegar fékk félagið greitt andvirði 100 milljóna USD skuldabréfaútgáfu, sem tilkynnt var um undir lok fyrra árs. Hins vegar greiddi félagið upp eftirstöðvar stofnláns móðurfélags. Þá hefur Landsnet samningsbundið aðgengi að lánalínu hjá viðskiptabanka félagsins og nýtir hana til að styðja við lausafjárstýringu félagsins og auka hagkvæmni við að mæta fjárþörf þess.
Fjárstýring og fjármögnun
Áhættustjórnun er hluti af stjórnkerfi Landsnets í þeim tilgangi að tryggja árangursríkan, ábyrgan og samfelldan rekstur. Áhersla er lögð á að tryggja sem best öryggi í rekstri, uppbyggingu og við kerfisstjórn á raforkuflutningskerfi Íslands, sem og að fjárhagsleg staða fyrirtækisins sé ávallt traust.
Stjórnendur og lykilstarfsmenn Landsnets auðkenna fjárhagslega og ófjárhagslega áhættu fyrirtækisins og leggja mat á mikilvægi hennar. Áhættuskrá félagsins er notuð til að ákvarða aðgerðir til að stýra eða draga úr áhættu.
Á árinu var unnið að áframhaldandi þróun á ferli við mat á áhættuþáttum í rekstri félagsins og eftirliti með þeim. Sérstök áhersla var lögð á vinnu við viðbragðs- og endurreisnaráætlanir allra sviða út frá markmiði um að tryggja samfelldan rekstur félagsins. Í rekstri raforkukerfisins eru til staðar viðbragðsáætlanir vegna stærri atburða sem geta sett rekstur félagsins í hættu, s.s. vá vegna óveðurs, jarðskjálfta, eldgosa, heimsfaraldurs, netárása, truflana o.s.frv. Viðbragðsáætlunum er einnig viðhaldið í rekstri og fyrir hvert svið.
Framkvæmd áhættustjórnunar tekur mið af meginreglum og leiðbeiningum alþjóðlegra staðla. Áhersla er lögð á að áhættustjórnun sé hluti af menningu fyrirtækisins, að starfsmenn þekki fyrirkomulag áhættustjórnunar og vinni samkvæmt því.
Stjórnunarkerfið og umbætur
Á síðari hluta ársins hefur verið hugað töluvert að skipulagi og fyrirkomulagi rannsókna og þróunar. Rannsóknastefna var uppfærð og sett fram skilgreining á því hvað teljist til rannsókna- og/eða þróunarverkefna. Hugmyndin er að nýta þessa skilgreiningu til þess að kortleggja umfang rannsóknanna.
Landsnet leggur áherslu á öflugt umbótastarf og að gera betur í dag en í gær. Það er undirstaða framfara og mikilvægur þáttur í menningu fyrirtækisins. Rík áhersla er lögð á ferlavæðingu, straumlínustjórnun og að einfalda gæðakerfið til að tryggja sýnileika í rekstri fyrirtækisins í heild með áherslu á þjónustu við viðskiptavini. Stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og að uppfylla viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni. Landsnet er með vottað stjórnunarkerfi í gæða-, heilsu-, öryggis-, upplýsingaöryggis-, jafnlauna-, rafmagnsöryggis- og umhverfismálum. Stjórnunarkerfið er vottað af BSI (British Standards Institution).
Markmið með stjórnunarkerfinu er m.a. að sjá til þess að stöðugar umbætur eigi sér stað og að lýsa starfsemi fyrirtækisins. Til að ná þessum markmiðum hefur verið mótuð gæðastefna. Í gæðastefnunni kemur fram að markmið Landsnets er að þjóna hagsmunum íslensks samfélags og þörfum hagaðila. Öruggt rafmagn er ein af undirstöðum samfélags og atvinnulífs. Mikilvægt er því að bæði samfélag og atvinnulíf hafi aðgengi að rafmagni í gæðum og öryggi í samræmi við þarfir.
Við erum í takti við samfélagið á hverjum tíma og vinnubrögð okkar einkennast af opnu og gagnsæju samtali og samráði. Við höfum metnað fyrir því að upplýsingar sem við látum frá okkur séu skilmerkilegar og skiljanlegar. Mikilvægur þáttur í starfseminni er að brugðist sé hratt við þjónustubresti eða neyðarástandi. Stuðlað er að áætlun, áhættumati og eftirliti með áhættum til að tryggja samfelldan rekstur. Áhættu er stýrt með gæðaskjölum sem lýsa rekstri félagsins og vinnulagi sem lagt er upp með til að tryggja að þörfum og væntingum hagaðila sé mætt.