Stjórnunarkerfið og umbætur

Ársskýrsla
Landsnet leggur áherslu á öflugt umbótastarf og að gera betur í dag en í gær. Það er undirstaða framfara og mikilvægur þáttur í menningu fyrirtækisins. Rík áhersla er lögð á ferlavæðingu, straumlínustjórnun og að einfalda gæðakerfið til að tryggja sýnileika í rekstri fyrirtækisins í heild með áherslu á þjónustu við viðskiptavini. Stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og að uppfylla viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni. Landsnet er með vottað stjórnunarkerfi í gæða-, heilsu-, öryggis-, upplýsingaöryggis-, jafnlauna-, rafmagnsöryggis- og umhverfismálum. Stjórnunarkerfið er vottað af BSI (British Standards Institution).
Stjórnunarkerfi Landsnets

Markmið með stjórnunarkerfinu er m.a. að sjá til þess að stöðugar umbætur eigi sér stað og að lýsa starfsemi fyrirtækisins. Til að ná þessum markmiðum hefur verið mótuð gæðastefna. Í gæðastefnunni kemur fram að markmið Landsnets er að þjóna hagsmunum íslensks samfélags og þörfum hagaðila. Öruggt rafmagn er ein af undirstöðum samfélags og atvinnulífs. Mikilvægt er því að bæði samfélag og atvinnulíf hafi aðgengi að rafmagni í gæðum og öryggi í samræmi við þarfir.

 

Við erum í takti við samfélagið á hverjum tíma og vinnubrögð okkar einkennast af opnu og gagnsæju samtali og samráði. Við höfum metnað fyrir því að upplýsingar sem við látum frá okkur séu skilmerkilegar og skiljanlegar. Mikilvægur þáttur í starfseminni er að brugðist sé hratt við þjónustubresti eða neyðarástandi. Stuðlað er að áætlun, áhættumati og eftirliti með áhættum til að tryggja samfelldan rekstur. Áhættu er stýrt með gæðaskjölum sem lýsa rekstri félagsins og vinnulagi sem lagt er upp með til að tryggja að þörfum og væntingum hagaðila sé mætt.

 

Öryggið skiptir okkur öllu máli

Okkar forgangsverkefni á liðnu ári hefur verið að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna í aðstæðum sem eiga sér ekki fordæmi. Við hjá Landsneti erum, líkt og öll heimsbyggðin, að takast á við faraldur vegna COVID-19, faraldur sem getur auðveldlega sett rekstraröryggi raforkukerfisins í slæma stöðu. Stjórnun fyrirtækisins á liðnu ári hefur öll tekið mið af því að verja heilsu starfsmanna og um leið að tryggja afhendingaröryggi og rekstur flutningskerfisins í heild. Nýjar nálganir við úrlausn verkefna og þann lærdóm sem kórónuveirufaraldurinn leiddi af sér munum við nýta til að gera enn betur þegar kemur að öryggi og heilsu starfsmanna okkar í komandi framtíð. 

 


 

Nýjar ISO-vottanir

Við höfum undanfarin ár unnið samkvæmt vottaða öryggisstjórnkerfinu OHSAS 18001. Á árinu varð sú breyting að Landsnet stóðst vottunarúttekt BSI á öryggisstjórnkerfinu ISO 45001 sem er framþróun með auknum kröfum þegar kemur að öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólksins. Fyrirtæki sem starfa samkvæmt vottuðum stjórnunarstöðlum þurfa sífellt að vinna að umbótum og eru líklegri en önnur fyrirtæki til að ná árangri í sinni starfsemi. Staðallinn styður kerfisbundið við örugga starfsemi og skilvirkni verkferla með það að markmiði að auka gæði og þjónustu um leið og persónuöryggi starfsmanna verður meira. Að sama skapi er lögð mikil áhersla á raunlægt öryggi með aðgangsstýringum að rýmum og gögnum ásamt vörnum gegn netöryggisógnum samkvæmt vottun og viðmiðum ISO 27001.

Samstillt átak skilar okkur árangri

Við hjá Landsneti stefnum að því alla daga að skapa slysalausan vinnustað ásamt fyrirtækjamenningu sem styður starfsfólk í að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir slys.

Ekkert fjarveruslys varð hjá starfsmönnum okkar á árinu. Eitt alvarlegt atvik varð í tengivirki á Norðurlandi þar sem betur fór en á horfðist. Það atvik færði okkur lærdóm sem leitt hefur af sér umbótavinnu sem á að tryggja að sambærileg atvik endurtaki sig ekki. 

Eitt alvarlegt slys varð í sameiginlegu tengivirki á Vestfjörðum þar sem starfsmenn Landsnets unnu sameiginlega í aðgerð þar sem starfsmaður dreifiveitunnar á staðnum slasaðist alvarlega. 

 

Þjálfun starfsfólks í öryggismálum tekur mið af þeim áhættuþáttum sem starfsfólk er útsett fyrir hverju sinni. Áherslur í þjálfun taka mið af áhættum í framkvæmdum og verkum.

Landsnet er í samstarfi við önnur sambærileg innviðafyrirtæki á Norðurlöndum um öryggismál sem nýtast okkur til að tryggja bestu viðmið og góða starfshætti hverju sinni.

Kolefnissporið

Á árinu jókst losun gróðurhúsalofttegunda hjá okkur um 13,5% og var 7.507 tonn af koltvísýringi. Losunarþættir í starfseminni hafa verið greindir í umfang 1, 2 og 3 eftir stöðlum Greenhouse Gas Protocol. Umfang 1 nær yfir beina losun frá starfsemi Landsnets en umföng 2 og 3 ná yfir óbeina losun félagsins.
 Stærsti losunarþáttur í umfangi 1 í starfseminni er leki frá einangrunargasinu brennisteinshexaflúoríði (SF6) sem notað er sem einangrunarmiðill í rafbúnaði tengivirkja. Lekinn var meiri á árinu 2020 en á árinu 2019, 3.121 tonn af koltvísýringi, en var 1.993 tonn árið 2019.

 Annar stór losunarþáttur í starfseminni er framleiðsla á varaafli, notkun á því dróst lítillega saman á milli ára og var losun vegna þeirra 632 tonn af koltvísýringi.

 Í umfangi 2 valda flutningstöp mestri óbeinni losun hjá félaginu. Flutningstöp drógust lítillega saman á milli ára og losuðu 3.454 tonn af koltvísýringi. Losunarstuðull vegna flutnings á rafmagni hækkaði á milli ára sem hefur áhrif á útreikninga. Hlutfall flutningstapa á árinu 2020 af öllum flutningi félagsins á árinu var 1,93%. Þegar kolefnisspor flutningstapa er reiknað er notast við íslensku orkukörfuna.

 Losunarþættir í umfangi 3 eru úrgangur frá félaginu og flug starfsmanna. Úrgangur dróst saman um 34% á milli ára og var flokkunarhlutfallið 76%. 70% af þeim úrgangi sem skilað var frá félaginu var endurunnið og endurnýtt. Flug erlendis dróst verulega saman sem má rekja til heimsfaraldurs og flug innanlands dróst lítillega saman á milli ára.
 Stefnan er að kolefnisjafna sem nemur 15% af losun koltvísýrings af völdum leka á SF6-gasi.

Mynd af losun gróðurhúsalofttegunda Landsnets

Kolefnishlutleysi

Við höfum sett okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Á árinu var m.a. unnið að áætlun um hvernig megi ná kolefnishlutleysi í tveimur stærstu losunarþáttum í umfangi 1 sem er SF6-gas og framleiðsla á varaafli.

Á árinu var bætt við hleðslustöðvum til að hlaða rafmagnsbíla á Gylfaflöt til að mæta aukinni rafbílanotkun starfsmanna og sett var upp geymsla fyrir hjól til að bæta aðstöðu fyrir starfsfólk sem hjólar til vinnu.


„Við tryggjum samfelldan rekstur og stjórnum okkar verkum út frá áhættu. Umhverfismál eru í forgangi og við tökum aldrei áhættu varðandi persónuöryggi.“ 

Áskoranir á óvenjulegum tímum

Okkar forgangsverkefni á liðnu ári hefur verið að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna í aðstæðum sem eiga sér ekki fordæmi. Við hjá Landsneti erum, líkt og öll heimsbyggðin, að takast á við faraldur vegna COVID-19, faraldur sem getur auðveldlega sett rekstraröryggi raforkukerfisins í slæma stöðu. Stjórnun fyrirtækisins á liðnu ári hefur öll tekið mið af því að verja heilsu starfsmanna og um leið að tryggja afhendingaröryggi og rekstur flutningskerfisins í heild. Nýjar nálganir við úrlausn verkefna og þann lærdóm sem kórónuveirufaraldurinn leiddi af sér munum við nýta til að gera enn betur þegar kemur að öryggi og heilsu starfsmanna okkar í komandi framtíð.