C.4 Skilmálar um vinnsluáætlanir
Útgáfa 1.0 gefin út 01.04.2008
1. Inngangur
1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum, og reglugerðum nr. 1050/2004 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum, nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga með síðari breytingum og nr. 513/2003 um kerfisstjórnun í raforkukerfinu.
1.2 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra, sbr. 6 mgr. 9. gr raforkulaga.
2. Skilgreiningar
Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:
2.1 Kerfisöng nefnast þær aðstæður þegar flutningsgeta flutningsvirkis eða hluta flutningskerfis er ófullnægjandi, þannig að takmarka þurfi orkuflutning.
2.2 Niðurreglun á við þörf fyrir neikvætt reglunarafl, þ.e. það afl sem taka þarf út af kerfinu þegar raunnotkun er minni en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.
2.3 Reglunarafl er það afl sem Landsnet nýtir til að jafna frávik milli áætlaðrar aflnotkunar og raunverulegrar aflnotkunar í raforkukerfinu í heild.
2.4 Reglunaraflsmarkaður er innkaupsmarkaður Landsnets fyrir reglunarafl.
2.5 Reiðuafl vegna truflana á við það raunafl, sem fyrirvaralaust er tiltækt fyrir tíðnistýringu utan við 49.8 – 50.2 Hz og stýrist sjálfvirkt út frá tíðnifráviki kerfis.
2.6 Uppreglun á við þörf fyrir jákvætt reglunarafl, þ.e. það afl sem þarf að bæta inn á kerfið þegar raunnotkun er meiri en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.
2.7 Vinnsluáætlun vinnslufyrirtækis skal innihalda tölulegar upplýsingar um fyrirhugaða framleiðslu þeirra virkjana þess sem hafa 7 MW aflgetu eða meira. Vinnsluáætlun er gerð fyrir einn dag í senn, klukkustund fyrir klukkustund.
2.8 Vinnslufyrirtæki er fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.
3. Almennt
3.1 Þessir skilmálar kveða á um lögboðin skil vinnslufyrirtækja á vinnsluáætlunum og hvernig þeim er fylgt við vinnslustýringu.
4. Skil á vinnsluáætlunum
4.1 Skil vinnsluáætlana skulu vera á rafrænu formi í gegnum heimasvæði vinnslufyrirtækis á vefsvæði Landsnets, nema Landsnet ákveði annað. Í vinnsluáætlun skal tilgreina fyrirhugaða vinnslu þeirra virkjana vinnslufyrirtækisins sem tengdar eru flutningskerfinu og hafa 7MW aflgetu eða meira. Fyrir þær virkjanir sem eru í stýringu frá Landsneti skal vinnsluáætlun gerð fyrir hverja vinnslueiningu. Í vinnsluáætlun skal vera tilgreind vinnsla fyrir hverja klukkustund. Fyrir virkjanir sem hafa aflgetu undir 7MW, skal skila inn vinnsluáætlun, ef afl þeirra er boðið á reglunaraflsmarkaði.
4.2 Vinnslufyrirtæki sem selur Landsneti reiðuafl vegna truflana skal sýna dreifingu þess á vélar sínar í vinnsluáætlun á því formi sem Landsnet ákveður.
4.3 Skil vinnsluætlana skulu vera fyrir kl. 14.00 föstudaginn fyrir þá viku sem fer í hönd, þ.e. frá laugardegi til föstudags. Leiðrétta má gildi í vinnsluáætlun allt að 2 klst. fyrir þann tíma sem þau eiga við. Ef upp koma rekjanleg tæknileg vandamál við skilin er heimilt að skila vinnsluáætlun utan þessa frests að fenginni heimild Landsnets.
4.4 Landsnet áskilur sér rétt til að hafna vinnsluáætlun ef fyrirsjáanlegt er að hún sé óframkvæmanleg vegna flutningstakmarkana eða að framkvæmd hennar sé ekki í samræmi við öruggan rekstur raforkukerfisins. Í slíkum tilfellum hefur Landsnet samband við viðkomandi vinnslufyrirtæki og gefur þeim ákveðinn frest til að senda inn endurskoðaða áætlun.
5. Vinnslustýring
5.1 Vinnslu þeirra virkjana, sem eru í beinni stýringu hjá Landsneti, er stjórnað samkvæmt vinnsluáætlunum þeirra og tilboðum á reglunaraflsmarkaði. Landsneti er þó heimilt að gera undantekningu frá þessu til að geta uppfyllt skyldur sínar vegna kerfisstjórnunar sbr. 2. mgr. 7. gr. raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum.
5.2 Breyting á vinnslu virkjunar vegna frávika á álagi frá áætlunum er gerð í samræmi við upp- eða niðurreglunartilboð og samkvæmt skilmálum um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.
5.3 Vinnslufyrirtæki sem stýra sjálf sínum virkjunum skulu gera það samkvæmt þeim vinnsluáætlunum sem þau senda Landsneti hverju sinni.
6. Ábyrgð
6.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi ábyrgð skulu einnig eiga við um vinnsluáætlanir.
7. Óviðráðanleg öfl
7.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi óviðráðanleg öfl skulu einnig eiga við um vinnsluáætlanir.
8. Brot á skilmálum
8.1 Heimilt er að óska eftir því að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. kafla raforkulaga ef brotið er gegn skilmálum þessum.
9. Eftirlit og úrræði
9.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt lögum nr. 65/2003 og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.
9.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða þessara skilmála skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Verði ágreiningi ekki skotið til Orkustofnunar má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.
10. Tilvísanir
10.1 A.1 Almennir skilmálar um flutning raforku og kerfisstjórnun.
10.2 B.3 Skilmálar um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku.