Framkvæmd

Hagsmunaráð Landsnets, stofnað 2018, er skipað 20 fulltrúum hagaðila að verkefnum í raforkuflutningskerfinu. Hagsmunaráði er ætlað að stuðla að auknu samráði, auknum gagnkvæmum skilningi, leiða til nýrra lausna og aukinnar sáttar um framtíð flutningskerfis raforku.

Hagsmunaráðið hefur haldið tvo vinnufundi þar sem fjallað var um skýrslu starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum sem var gefin út 8. mars 2022 af Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Þar eru sett fram 30 álitamál og ákvörðunarefni sem skýrsluhöfundar telja að taka þurfi fastari tökum í orkumálum. Aðilar að hagsmunaráðinu hafa ólíkar efnislegar skoðanir á þeim niðurstöðum. Engu að síður var ákveðið að hagsmunaráðið færi skipulega yfir tilgreind álitamál til að draga fram þau sem  skipta starfsemi Landsnets mestu máli.

Fimm voru valin sem þau mikilvægustu.

Tvö snúa beint að Landsneti til úrlausnar m.a. í endurskoðaðri kerfisáætlun sem og á öðrum vettvangi:

1) „Uppbygging á flutningsneti Landsnets hefur orðið skrefi á eftir flutningsþörfinni. Mikilvægt er að meta hvort áætlanir um flutningskerfi Landsnets ráði við orkuskipti í skrefum og þar með allt að rúmlega tvöföldun á raforkuframleiðslu næstu 18 – 28 árin.”

2)  „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 2021 var markmiði um jarðefnaeldsneytislaust Ísland flýtt til 2040 frá 2050. Eigi að standa við markmiðið verða allir orkuframleiðendur, opinberar stofnanir og hagaðilar sem koma að leyfisveitingaferlinu að samstilla forsendur og aðgerðir.”

Þrjú álitamál og ákvörðunarefni tekur Hagsmunaráð Landsnets undir sem brýn skilaboð til hlutaðeigandi aðila er ber að vinna að sérhverju verkefnanna:

3) „Megingagnrýnin er á skipulag hins opinbera leyfisveitingaferlis þar sem tíminn sem það tekur er talinn of langur og að rammaáætlunarleiðin virki ekki vegna óheyrilegra tafa í meðferð Alþingis. Taka þarf ákvörðun um hvort leggja eigi í vinnu til að bæta ferlið áfram í samráði við hagsmunaaðila eins og við getur átt.”

4) „Brýnt er að fyrir liggi hvernig fara skuli með vindorkuver, m.t.t. rammaáætlunar, skipulagsmála, umhverfisþátta, ferlis leyfisveitinga og annarra atriða eins og við á. Hraða þarf vinnslu og framlagningu boðaðs lagafrumvarps í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar”.

5) „Marka þarf stefnu um hvort auka eigi framleiðslu á rafeldsneyti á Íslandi, a.m.k. í þeim mæli sem svarar til eftirspurnar eftir slíku eldsneyti í landinu þegar orkuskipti ganga yfir. Skoða þarf fýsileika þess og móta afstöðu til þess hvort það er þjóðhagslega hagkvæmt að framleiða rafeldsneyti til útflutnings frá Íslandi.”

 

Aftur í allar fréttir