Tengivirkið Sigalda
Uppruni verkefnisins er endurnýjunaráætlun Landsnets. Elsti 220 kV rofabúnaður virkisins er farinn að láta á sjá og hefur verið að bila talsvert undanfarið auk þess sem að ekki er hægt að fá varahluti lengur í búnaðinn. Afar miklir hagsmunir eru í húfi ef stórvægileg bilun verður í tengivirkinu þar sem tvær aflstöðvar eru háðar virkinu ásamt því að byggðalínan hefur endapunkt í því.
Markmið framkvæmdarinnar eru að tryggja öryggi afhendingar og auka áreiðanleika eins stærsta tengivirkis Landsnets ásamt endurnýjun eldra virkis.
Verkefnið felur í sér byggingu nýs 220 kV tengivirkis við hlið núverandi tengivirkis við Sigölduvirkjun. Gert er ráð fyrir að í virkinu verði átta 220 kV rofareitir, einn 132 kV reitur ásamt 160 MVA aflspenni.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í lok árs 2023 og að þeim ljúki tæpum tveimur árum seinna. Áætluð spennusetning er 2025.