Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rafsegulsvið

Rafsegulsvið er samheiti yfir hugtökin rafsvið og segulsvið. Rafsvið verður til vegna spennumunar og er í kringum öll rafmagnstæki sem eru í sambandi, óháð því hvort kveikt er á þeim eða ekki. Segulsvið myndast hins vegar í kringum rafmagnstæki um leið og kveikt er á þeim en hverfur þegar slökkt er. 

Áhrif raforkuflutnings

Rafsegulbylgjur hafa mjög mismunandi áhrif á efni eftir því hver tíðni og bylgjulend þeirra er. Við raforkuflutning verður til raf- og segulsvið á mjög lágri tíðni. Tíðni raforkuflutnings á Íslandi, líkt og víðar í heiminum, er 50 Hz en til samanburðar er tíðni örbylgna um 1-100 GHz og tíðni röntgenbylgna um 106-1011 GHz. Þar sem örbylgjur hafa mjög háa tíðni og stutta bylgjulengd verður það til þess að sameindir komast á hreyfingu sem framkallar hita vegna núnings á milli þeirra.

Spennumunur í þrumuveðri

Í umhverfi jarðar eru bæði raf- og segulsvið. Rafsviðið stafar venjulega af því að skýin eru neikvætt hlaðin miðað við jörðu. Almennt er spennumunur jarðar og skýja hins vegar svo lítill að ekki verður vart sýnilegra áhrifa. Í þrumuveðrum er spennumunur jarðar og skýja hins vegar svo mikill að andrúmsloftið nær ekki að einangra nægjanlega og eldingu slær niður. Náttúrulegt segulsvið jarðar gerir fólki kleift að nota áttavita þar sem jörðin er svokallaður seguldípóll og segulsviðið leitar frá norðurpóli til suðurpóls.

Áhrif á heilsu

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvort rafsegulsvið, sem verður til við raforkuflutning, hefur skaðleg áhrif á heilsu fólks. Rannsóknir hafa ekki gefið skýr svör um slík skaðleg áhrif en þær hafa sýnt takmarkaða tengingu rafsegulsviðs við hvítblæði hjá börnum sem dvelja langdvölum í stöðugu segulsviði.

Helgunarsvæði

Umhverfis háspennulínur er svokallað helgunarsvæði þar sem ekki er leyfilegt að byggja mannvirki. Fyrir 220 kV línur er helgunarsvæðið almennt 65-85 m og þar sem styrkur rafsegulsviðs minnkar mjög hratt með aukinni fjarlægð frá uppsprettu er styrkur almennt kominn niður fyrir viðmiðunarmörk þegar helgunarsvæði lýkur.

Rafsegulsvið. Bæklingur Landsnets

Rafsegulsvið. Kynning Landsnets

Frekari upplýsingar