Beint á efnisyfirlit síðunnar

Raforkumarkaðurinn á Íslandi

Samkeppni ríkir um framleiðslu og sölu á raforku á meðan flutningur og dreifing eru háð sérleyfi og eftirliti

Með nýjum raforkulögum árið 2003 urðu veigamiklar breytingar á íslenska raforkumarkaðinum.

Markmið þeirra var að skapa forsendur fyrir virka samkeppni í raforkusölu, auka skilvirkni í flutningi og dreifingu, tryggja gæði og öryggi afhendingar og efla neytendavernd. Með gildistöku laganna varð sú grundvallarbreyting að skilið var á milli framleiðslu á rafmagni, flutnings, dreifingar og sölu.

Samkeppni - sérleyfi

Opnað hefur verið fyrir frjálsa samkeppni í framleiðslu og sölu raforku. Flutningur og dreifing raforku eru hins vegar háð sérleyfi, enda er litið svo á að þar sé um að ræða nokkurs konar þjóðbrautir sem allir eigi að hafa jafnan aðgang að.


Sérleyfisstarfsemin lýtur sérstöku eftirliti Orkustofnunar sem meðal annars fylgist með verðlagningu, gæðum og afhendingaröryggi. Eftir sem áður getur sama orkufyrirtækið verið í senn framleiðandi, dreifingaraðili og sölufyrirtæki en í slíkum tilfellum er hins vegar skylt að hafa bókhaldlegan aðskilnað milli sérleyfis- og samkeppnisþátta.

Landsnet annast rekstur flutningskerfisins og kerfisstjórnun. Flutningskerfinu tilheyra allar raflínur, tengivirki og mannvirki sem þeim tengjast og sem flytja raforku á 66 kV eða hærri spennu. Frá þessu eru einstaka undantekningar.