Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lína eða strengur

Raforkunotkun hér á landi hefur vaxið ört síðustu áratugi og er það að miklu leyti vegna aukinnar stóriðju. Framleiðslueiningum hefur því fjölgað og raforkuflutningur aukist, bæði í flutningskerfi og dreifikerfum.

Til að anna aukinni eftirspurn þarf að styrkja kerfið og er það meðal annars gert með því að endurbyggja eldri línur eða reisa nýjar. Samhliða vaxandi umhverfisvitund Íslendinga hefur umræða um að leggja rafmagnslínur í jörð aukist mikið undanfarin ár.

Loftlínur - bordi

Loftlínur

Flutningslínur rafmagns á Íslandi eru að langstærstum hluta loftlínur en með flutningslínum er átt við línur sem eru reknar á 66 kV eða hærri málspennu.

Jarðstrengir hafa verið lagðir á afmörkuðum og stuttum köflum og þar sem sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Innan þéttbýlissvæða er lögð áhersla á að leggja allar lagnir í jörð. Rekstrarspenna slíkra strengja hefur farið hækkandi undanfarna áratugi í takt við meiri flutningsþörf og tæknilegar framfarir í framleiðslu strengja.

Þær hafa einnig gert lagnir strengja með háa spennu hagkvæmari en áður. Í Reykjavík eru t.d. meginlínur aðveitustöðva Orkuveitunnar 132 kV jarðstrengir.

Jardstrengir - bordi

Jarðstrengir

Helsta ástæða þess að jarðstrengir eru ekki eins útbreiddir og loftlínur er mikill stofnkostnaður.

Einnig hafa tæknilegar takmarkanir jarðstrengja og vandkvæði við rekstur þeirra á hárri spennu haft áhrif á útbreiðslu þeirra.

Ef litið er til annarra landa má sjá að líkt og hérlendis verða strengir fyrir valinu þegar um er að ræða raforkuflutning í þéttbýli.

Þeir eru líka lagðir nálægt aðflugi flugbrauta og þegar þvera þarf ár og vötn þar sem loftlínum verður ekki komið við. Þá er í sumum tilvikum um tæknilegar ástæður að ræða, t.d. nálægð við tengivirki eða þegar þvera þarf aðra loftlínu.