Beint á efnisyfirlit síðunnar

Háspennulínur

Ísing á háspennumastri Smelltu á mynd til að stækka

Ísing á háspennumastri og strengjum.

Rafmagn er flutt um háspennulínur á milli staða en til að setja rafmagn inn á kerfið eða taka það út af kerfinu eru notuð tengivirki.

Burðarvirki háspennulína eru ýmist úr timbri eða stáli og með eða án sérstakra undirstaðna. Hönnunarforsendur, sem m.a. taka mið af hugsanlegu álagi vegna vinds, ísingar og spennuvals, ráða mestu um hvort byggingarefnið er valið. Spennuval ræður mestu um hæð mastra í háspennulínu. Af því helgast einnig að möstur í 220 kV línum eru nær undantekningarlaust byggð úr stáli og eru á steyptum undirstöðum.

Hærri spenna - meiri hæð

Gerð er sérstök krafa um fjarlægð leiðara (rafmagnsvíra) frá jörðu. Fjarlægð eykst eftir því sem spennan er hærri. Í raun er það andrúmsloftið sem einangrar rafmagnið frá jörðu en sérstakir einangrarar, ýmist úr gleri eða postulíni, einangra leiðara frá burðarvirki.

Auk burðarvirkis línu og leiðara (rafmagnsvíra) eru mikilvægustu þættir háspennulínunnar einangraraskálar og tengi- og stagbúnaður. Þá eru margar háspennulínur með sérstökum jarðvír efst í mastri til að taka við eldingum og verja endabúnað í tengivirki með því að leiða eldingarnar um burðarvirki til jarðar. Á síðari árum hefur verið lögð mikil áhersla á að háspennulínur falli sem best að landinu sem þær liggja um.