Beint á efnisyfirlit síðunnar

Reikningar og greiðslur

Til að uppfylla lagalegar og fjárhagslegar kröfur, sem gerðar eru til Landsnets, er nauðsynlegt að fram fari nákvæm skráning á öllum fjármunafærslum, hvort sem er í reiðufé eða á bankareikningum fyrirtækisins.

Reikningar, fylgiskjöl og öll önnur bókhaldsgögn eiga á hverjum tíma að vera tiltæk til endurskoðunar þegar eftir þeim er kallað. Nákvæm framsetning reikningsskila er einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi fyrirtækisins.

Starfsmönnum ber að hafa í huga að skýrslur og önnur skjöl, sem fylla þarf út og tengjast störfum þeirra hjá Landsneti, eru vinnuskjöl sem endurskoðendur og þeir, sem undirbúa reikningsskil fyrirtækisins, treysta á að séu rétt.

Falsanir eða óréttmæt skráning skjala eða önnur háttsemi, sem kemur í veg fyrir að upplýsingar, sem fyrirtækinu ber að veita opinberum eftirlitsaðilum eða endurskoðendum, séu réttar, er alvarlegt brot á siðareglum Landsnets.

Starfsmönnum Landsnets ber að hafa eftirfarandi í huga í störfum sínum: 

  • Að skrá tafarlaust allar greiðslur sem koma inn á reikning eða fara út af reikningi.
  • Að taka ekki þátt í að útbúa gögn til að fela eitthvað, t.a.m. að útbúa lægri reikning eða hærri gagnvart tilteknum viðskiptavini, eða að verða við ósk um að haga greiðslum eða reikningagerð viðskiptavinar með öðrum hætti en tíðkast hjá öðrum sambærilegum viðskiptavinum.
  • Að starfa með innri og ytri endurskoðendum fyrirtækisins og öðrum aðilum sem sinna eftirliti með fyrirtækinu.
  • Að tilkynna ef þeir hafa vitneskju um bókhaldsgögn eða færslur sem þeir telja að séu öðruvísi en eðlilegt getur talist.

Hafa ber í huga að brot gegn siðareglum Landsnets verða rannsökuð af þar til bærum aðilum.